banner
   mán 11. desember 2017 18:00
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Heimir Guðjóns: Ekki hægt að segja allt sem mann langar
Heimir á hliðarlínunni.
Heimir á hliðarlínunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heimir Guðjónsson var látinn fara frá FH í haust en í viðtölum talaði hann um að það hafi í raun verið „þjálffræðilegt afrek" að ná að koma liðinu í Evrópusæti á liðnu tímabili.

Heimir vildi ekki útskýra þessi ummæli sín á þessum tímapunkti þegar hann var spurður út í þau í útvarpsþættinum Fótbolti.net en ljóst má vera að eitthvað hafi átt sér stað bak við tjöldin.

„Þetta er góð spurning en svarið, ég held að það komi seinna. Það var ýmislegt sem gerðist. Við tökum þessa umræðu seinna en þegar ég mun útskýra þetta þá mun ég standa á bak við þetta," segir Heimir.

„Það er ekkert viðkvæmt í sjálfu sér en það er ekki hægt að segja allt sem mann langar til."

Heimir segir að hann hafi ekkert hugsað út í það í sumar að þetta gæti verið hans síðasta tímabil með FH.

„Það voru allir sammála um að það gekk ekki nógu vel. Eftir hvert tímabil veltir þú fyrir þér stöðunni. Maður veltir fyrir sér hvort maður vilji hætta núna, enda í þriðja sæti og tapa bikarúrslitaleik. Vill maður enda þannig eftir átján tímabil hjá félaginu? Þetta eru spurningar sem maður spyr sig eftir tímabil. Ég held að allir þjálfarar geri það. Eftir tímabil er skoðað hvað gekk vel og hvað gekk illa. Yfir sumarið var ég ekkert að velta því fyrir mér hvað myndi gerast um haustið."

Jón Rúnar Halldórsson, formaður FH, segir að félagið hafi gert stór mistök í glugganm fyrir síðasta tímabil en Heimir vill ekki taka svo til orða.

„Þetta er peningalegs eðlis. Ég held að menn hafi ekki verið tilbúnir að eyða nægilega miklu fyrir síðasta tímabil. En ég er ekki alveg tilbúinn að tala um mistök. Sumir leikmenn þurfa aðlögunartíma. Ef leikmaður gerir þriggja ára samning og það kemur ekkert út úr honum á þessum þremur árum þá er hægt að tala um mistök. En svo getur þetta verið þannig að fyrsta árið er ekki gott en svo koma tvö ár sem eru góð. Það er erfitt á þessum tímapunkti að tala um mistök," segir Heimir.

Smelltu hér til að hlusta á viðtalið við Heimi í heild sinni en þar talar hann meðal annars um mögulega þreytu sem getur myndast þegar þjálfarar og leikmenn vinna lengi saman.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner