Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   mán 11. desember 2017 22:55
Ívan Guðjón Baldursson
Van Gaal: Man Utd spilaði sóknarbolta undir mér
Van Gaal hefur ekki stýrt knattspyrnuliði í eitt og hálft ár. Auk Man Utd hefur hann stýrt hollenska landsliðinu, FC Bayern, Ajax og AZ Alkmaar.
Van Gaal hefur ekki stýrt knattspyrnuliði í eitt og hálft ár. Auk Man Utd hefur hann stýrt hollenska landsliðinu, FC Bayern, Ajax og AZ Alkmaar.
Mynd: Getty Images
Louis van Gaal var gagnrýndur harkalega fyrir tíma sinn hjá Manchester United þar sem félagið þótti spila lélegan og hundleiðinlegan fótbolta.

Van Gaal finnst gagnrýnin vera ósanngjörn, sérstaklega miðað við hvernig Rauðu djöflarnir hafa verið að spila undir stjórn Jose Mourinho.

„Þegar ég er spurður hvernig mér fannst ég standa mig hjá United þá svara ég að það hafi verið mitt besta ár frá upphafi þjálfaraferilsins, sérstaklega miðað við hvernig ástandið var innan félagsins," sagði Van Gaal við Fox Sports í Hollandi.

„Við spiluðum fínan fótbolta sem Englendingar kunna einfaldlega ekki að meta. Núna finnst mér furðulegt að Mourinho sé ekki gagnrýndur því hann er að spila miklu leiðinlegri fótbolta en liðið gerði nokkurn tímann undir minni stjórn.

„United spilar varnarsinnaðan bolta. Þegar ég var við stjórn spiluðum við sóknarsinnað. Því til sönnunar er að liðin sem við mættum lögðu öll rútunni gegn okkur. Núna gera lið það ekki lengur því Mourinho spilar varnarbolta."


Þá er van Gaal ósáttur með hvernig hann var rekinn úr stjórastarfinu, tveimur dögum eftir að hafa tryggt sínum mönnum enska FA bikartitilinn.

„Ed Woodward (framkvæmdastjóri Man Utd) talaði aldrei við mig um neitt. Það er skrítið því ég er alltaf opinn fyrir ráðleggingum og gagnrýni.

„Með alla mína reynslu þekki ég óskrifuð lög knattspyrnuheimsins. Ed hefði getað rætt við mig en gerði það ekki og rak mig án þess að eiga alvöru samtal."

Athugasemdir
banner