Norðurlandsmótið, Kjarnafæðismótið, hófst í gær með tveimur leikjum í Boganum á Akureyri. KA vann 5-1 sigur gegn Leikni Fáskrúðsfirði í A-riðli og varalið félagsins, KA2, vann svo 3-1 sigur gegn Völsungi í B-riðli.
KA2 er skipað ungum leikmönnum hjá KA.
KA2 er skipað ungum leikmönnum hjá KA.
KA 5 - 1 Leiknir F.
1-0 Hrannar Björn Steingrímsson ('15)
2-0 Davíð Rúnar Bjarnason ('25)
3-0 Orri Gústafsson ('36)
4-0 Hrannar Björn Steingrímsson ('57)
4-1 Bjarni Guðmundsson (víti)
5-1 Hallgrímur Mar Steingrímsson ('89)
Leikurinn byrjaði fjörlega en KA menn byrjuðu af fullum krafti og áttu hverja sóknina á fætur annarri. Þeir náðu að skora fyrsta markið eftir góða pressu á vörn Leiknismanna sem voru að reyna að spila út úr vörninni. Hrannar Steingrímsson fékk boltann og skoraði auðveldlega yfir markvörð Leiknismanna. KA menn héldu áfram að sækja og náðu að skora annað mark en það var eftir hornspyrnu, Leiknismenn náðu ekki að hreinsa og Davíð Bjarnason skoraði af stuttu færi. Þriðja markið skoraði Orri Gústafsson eftir hornspyrnu og baráttu inní teig. KA menn leiddu í hálfleik 3-0 eftir að hafa algjörlega stjórnað leiknum.
Seinni hálfleikur var ekki eins fjörlegur og sá fyrri. KA var áfram með yfirhöndina og náðu að skora sitt fjórða mark, en þar var að verki Hrannar Steingrímsson en hann skoraði með föstu skoti út teignum, hans annað mark. Leiknismenn náðu í seinni hálfleik skyndisóknum og í einni þeirra fengu þeir vítaspyrnu sem afmælisbarn dagsins, Bjarni Guðmundsson skoraði örugglega úr stöngin inn. Fallegasta mark leiksins kom á lokamínútunum en þá fengu KA menn aukaspyrnu fyrir utan vítateig. Hallgrímur Mar Steingrímsson tók spyrnuna og skrúfaði boltann yfir vegginn í nærhornið, glæsilegt mark.
Sigur KA manna var aldrei í hættu og unnu þeir þægilegan 5-1 sigur.
Maður leiksins Hrannar Steingrímsson.
KA2 3 - 1 Völsungur
1-0 Jakob Atli Þorsteinsson
1-1 Bergur Jónmundsson
2-1 Gunnar Örvar Stefánsson
3-1 Gunnar Örvar Stefánsson
Á 11. mínútu leiksins vann Gunnar Örvar boltann, rak hann upp að endalínu og sendi síðan út í teig þar sem Jakob Atli var mættur og skoraði. Lítið markvert gerðist það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. KA menn ívið sterkari og sköpuðu sér nokkur hálffæri. Staðan 1-0 í hálfleik.
KA menn byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og áttu dauðafæri en Snæþór í marki Völsunga kom í veg fyrir mark.
Á 61. mínútu jöfnuðu Völsungar leikinn. Löng sending fram á Aðalstein sem tók boltann niður, lék á varnarmann og sendi síðan góða sendingu inn fyrir vörn KA á Berg sem tók hann með sér og hamraði upp í þaknetið og staðan orðin 1-1. Fallegt mark hjá Völsungum.
KA-menn voru ekki lengi að svara fyrir sig. Aðeins fjórum mínútum síðar fékk KA horn. Boltinn var sendur inn á teig þar sem Gunnar Örvar var mættur og skallaði hann knöttinn í fjærhornið. 2-1 KA í vil.
Á 72. mín fékk KA dæmda vítaspyrnu þegar Gunnar var tekinn niður. Hann fór sjálfur á punktinn en Snæþór varði slakt vítið. Á 80. mínútu kom falleg sókn hjá KA. Ólafur Aron átti þá sendingu upp í horn á Bjarka sem lagði boltann fyrir sig og sendi hann síðan fyrir mark Völsunga þar sem Aron Ingi skallaði fyrir fætur Gunnars sem skaut í hornið framhjá Snæþóri í markinu. Glæsilegt mark hjá KA.
Athugasemdir