Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fös 12. febrúar 2016 10:13
Elvar Geir Magnússon
Eiður Smári Guðjohnsen til Molde (Staðfest)
Eiður Smári og Magnús Agnar umboðsmaður.
Eiður Smári og Magnús Agnar umboðsmaður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eiður Smári Guðjohnsen, einn besti leikmaður Íslands frá upphafi, hefur gengið frá samkomulagi við Molde um að spila fyrir liðið á komandi tímabili. Mánuður er í að tímabilið í norsku úrvalsdeildinni hefjist en Molde hefur þrívegis orðið norskur meistari, síðast 2014.

Á síðasta tímabili hafnaði liðið í sjötta sæti. Þjálfari þess er Ole Gunnar Solskjær, fyrrum leikmaður Manchester United.

Eiður hefur staðist læknisskoðun og hefur þegar verið myndaður í búningi félagsins. Fjölmiðlum hefur verið boðið á æfingasvæði Molde í hádeginu.

„Minn metnaður er að spila eins vel og ég get og hjálpa liðinu eins og hægt er. Vonandi getum við barist um meistaratitilinn," segir Eiður sem er á leið á sína fyrstu æfingu með liðinu.

Molde er í Evrópudeildinni þar sem liðið mætir Sevilla í fyrri leik 16-liða úrslita eftir sex daga. Seinni leikurinn verður 25. febrúar.

Eiður er 37 ára og verður líklega í landsliðshópi Íslands á EM í sumar. Hann lék síðast fyrir Shijiazhuang Ever Bright í Kína en auk þess hefur hann meðal annars leikið fyrir Club Brugge, Bolton, AEK, Fulham, Tottenham, Monaco, Bolton og PSV Eindhoven.

Blómatími hans kom 2000-2009 þegar hann lék fyrir Chelsea og svo Barcelona. Hann vann Meistaradeildina, enska meistaratitilinn tvívegis og spænska meistaratitilinn á þeim tíma.
Athugasemdir
banner
banner
banner