banner
   fös 12. febrúar 2016 10:05
Elvar Geir Magnússon
Van Gaal: Scholes spúir eitri um stuðningsmenn
Paul Scholes starfar nú sem sparkspekingur í sjónvarpi.
Paul Scholes starfar nú sem sparkspekingur í sjónvarpi.
Mynd: Getty Images
Louis van Gaal, stjóri Manchester United, gagnrýnir Paul Scholes fyrir að reyna að snúa stuðningsmönnum gegn sér. Hollendingurinn segir Scholes búa til neikvætt andrúmsloft.

Van Gaal segir að Scholes nýti sér að vera goðsögn hjá félaginu til að hafa áhrif.

„Ég þekki það vel að vera undir gagnrýni. Fyrsta árið mitt hjá Ajax var ekki skemmtilegt fyrir mig. Ég tók við af Leo Beenhakker og við töpuðum fyrstu þremur leikjunum. Stuðningsmenn kölluðu eftir Cruyff allt árið," segir Van Gaal.

„Ég hef alltaf náð að vinna við þessar aðstæður. Það er mikið álag að vera þjálfari Barcelona því bæði úrslitin og spilamennskan skipta miklu máli. Á Englandi skipta úrslitin nánast öllu. Scholes hefur haft áhrif á tiltekinn hóp af stuðningsmönnum."

Ryan Giggs, aðstoðarmaður Van Gaal, er góður vinur Scholes. Van Gaal segist ekki hafa dottið í hug að fá Giggs til að ræða við vin sinn.

„Nei ég ætla ekki að hafa áhrif á vináttu Ryan og Scholes. Ég hef verið í þjálfun allt mitt líf og það yrði ekki jákvætt og heiðarlegt af mér að biðja Ryan um að segja eitthvað."

„Allir eiga rétt á sinni skoðun og það er jákvætt. En mitt vandamál er þegar einhver getur skapað mjög neikvætt andrúmsloft hjá fleirum. Kannski ætti hann að vera jákvæðari," segir Van Gaal en háværar sögusagnir eru um að Jose Mourinho muni taka við starfi hans. Sjálfur segist Van Gaal ekki hafa fengið þau skilaboð að hann sé á útleið.
Athugasemdir
banner
banner