Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mán 12. mars 2018 12:21
Elvar Geir Magnússon
Arnar Grétars: Allir Íslendingar taka andköf vegna frétta af Gylfa
Icelandair
Gylfi Þór Sigurðsson er algjör lykilmaður í íslenska landsliðinu.
Gylfi Þór Sigurðsson er algjör lykilmaður í íslenska landsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Grétarsson.
Arnar Grétarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Liðbandameiðsli eru oft þannig að það tekur alveg djöfulli langan tíma að jafna sig að fullu," segir Arnar Grétarsson, fótboltaþjálfari og fyrrum landsliðsmaður Íslands.

Fótbolti.net fékk Arnar til að ræða um fréttirnar af okkar besta landsliðsmanni, Gylfa Sigurðssyni, sem er með liðbandameiðsli í hægra hné. Ekki er vitað hversu alvarleg meiðslin eru en íslensku fótboltaáhugafólki er brugðið enda 96 dagar í fyrsta leik Íslands á HM Rússlandi, leik gegn Argentínu 16. júní.

Óttast er að Gylfi gæti misst af HM.

„Eins og allir vita er hann algjör lykilmaður fyrir okkur Íslendinga og okkar stærsta nafn. Hann hefur sett fordæmi að öllu leyti, bæði innan og utan vallar. Það yrði alveg gríðarlegt áfall ef hann gæti ekki tekið þátt í keppninni og líka slæmt ef hann nær ekki undirbúningnum. Ísland mætti ekki við slíku enda gefur Gylfi liðinu mikið vægi. Maður vonar innilega að Gylfi missi ekki af keppninni" segir Arnar.

Við eigum bara einn Gylfa Sig
„Það er talað um að maður komi í manns stað en það er erfiðara að fylla þetta skarð. Við eigum bara einn Gylfa Sig, hann er í sérflokki hjá okkur."

Arnar segir að það yrði stærra skarð fyrir Ísland að fylla ef Gylfi missir af HM en það yrði fyrir Argentínu að missa Lionel Messi.

„Það yrði gríðarlegt áfall ef Argentína myndi missa mann eins og Messi en þjóðin á aragrúa af topp fótboltamönnum og það kæmi mjög góður leikmaður í staðinn þó hann væri auðvitað ekki í sama flokki og Messi."

Með Gylfa á vellinum er klárlega enn meiri trú hjá öðrum landsliðsmönnum Íslands á því að liðið geti unnið.

„Andlegi þátturinn spilar líka inn í og að vera með Gylfa gefur öðrum í hópnum uppörvun. Landsliðsstrákarnir hafa virkilega trú á því að þeir geti farið í hvaða leik sem er og unnið. Ég hef alveg trú á því að við getum unnið Argentínu ef allt gengur eftir. Það er alveg möguleiki en ef Gylfi er ekki með er stórt skarð sem þarf að fylla. Það er enn talsvert í mót og það getur ýmislegt gerst, ef liðbandið er ekki slitið þá ætti hann að vera klár í mótið hjá okkur," segir Arnar.

Þurfum vonandi ekki að velta því fyrir okkur
„Allir sem tengjast Íslandi taka andköf, það er bara þannig. Við verðum bara að vona að þetta sé ekki alvarlegt því þetta hefur mikil áhrif innan og utan vallar."

Ísland mætir Perú í og Mexíkó í vináttulandsleikjum í Bandaríkjunum 23. og 27. mars en hópurinn fyrir þá leiki verður opinberaður á föstudaginn. Arnar segir að það verkefni gæti farið að stórum hluta í að búa liðið undir það ef Gylfi verður ekki með á HM.

„Ég hef mikla trú á Heimi Hallgrímssyni og er mikill pælari og leggur mikla vinnu í þetta. Vonandi þurfum við ekki að fara í að velta því fyrir okkur hvernig við spilum án Gylfa en ef það er raunin gætu komandi leikir farið í það. Þá sjáum við pælingar um hvernig spila ætti án Gylfa. Við eigum góða fótboltamenn, leikstíllinn yrði aðeins öðruvísi án Gylfa en það eru möguleikar," segir Arnar.

Sjá einnig:
Sjúkraþjálfari Vals: Trúi ekki að liðbandið sé slitið hjá Gylfa
Athugasemdir
banner
banner