Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
   mán 12. mars 2018 17:00
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
VAR-dómgæsla og 4. skiptingin í framlengingu
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Gylfi Þór Orrason.
Gylfi Þór Orrason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Myndbandsdómgæslan er að koma inn í mörgum keppnum.
Myndbandsdómgæslan er að koma inn í mörgum keppnum.
Mynd: Sky Sports
Fjórða skiptingin verður nú leyfð í framlengingum.
Fjórða skiptingin verður nú leyfð í framlengingum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á 132. ársfundi Alþjóðanefndar knattspyrnusambanda (IFAB) sem haldinn var í Zürich í byrjun þessa mánaðar voru ákvæðin um "vídeó-aðstoðardómgæslu" (VAR =Video Assistant Referees) formlega skrifuð inn í sjálf knattspyrnulögin. Eins og flestir knattspyrnuaðdáendur hafa væntanlega orðið varir við þá hafa á undanförnum árum verið gerðar tilraunir með notkun kerfisins í ýmsum knattspyrnumótum, en með þessari samþykkt IFAB nú er ekkert lengur því til fyrirstöðu að nota megi kerfið í stórum sem smáum mótum, svo fremi sem þau skilyrði sem sett eru í knattspyrnulögunum um notkun þess séu uppfyllt. Eins og við var að búast eru skoðanir skiptar um ágæti kerfisins, en nú hefur öllum formsatriðumvarðandi innleiðingu þess sem sagt verið fullnægt og því hefur FIFA m.a. þegar tilkynnt formlega að sambandið hyggist notfæra sér það í lokakeppninni HM í Rússlandi í sumar. Úr þessu verður því varla aftur snúið, en hins vegar hlýtur að teljast afar ólíklegt að VAR-kerfið verði tekið upp í leikjum á Íslandi í bráð og lengd vegna hinna ítarlegu og flóknu skilyrða sem innleiðingu þess fylgja (t.d. hvað varðar kröfur um fjölda upptökuvéla og annan tæknibúnað).

Samfara heimild sinni til notkunar VAR-kerfisins hefur IFAB jafnframt gefið út handbók með leiðbeiningum og fyrirmælum sem fylgja ber til hins ítrasta hyggist mótshaldarar innleiða kerfið. Leiðbeiningarnar og fyrirmælin byggja á reynslunni úr þeim tilraunum sem gerðar hafa verið með notkun VAR í nokkrum af stærstu knattspyrnudeildunum víða um heim, en þau snúa bæði að tæknimálunum og mönnun kerfisins, en ekki síður er þar reynt að afmarka hvers konar atvik megi nýta kerfið til að meðhöndla.

Meginreglan er sú að nota skuli kerfið þannig að það valdi "lágmarks truflun" en tryggi um leið "hámarks gagnsemi" (minimum interference, maximum benefit). Notkun kerfisins ber einnig að takmarka við "augljós mistök" dómara og "alvarleg atvik" sem dómarateymið missir af þegar málið snýst um:
• Mark eða ekki mark.
• Vítaspyrnu eða ekki vítaspyrnu.
• Beint rautt spjald (þ.e. ekki þegar málið snýst um seinna gula spjaldið).
• Mannavillt (þ.e. þegar dómarinn áminnir eða vísar af leikvelli röngum aðila úr hinu brotlega liði).

Nánar tiltekið þegar um er að ræða mark/ekki mark atvik má nýta VAR bæði til að sannreyna hvort boltinn hafi farið allur inn fyrir marklínuna eða ekki og einnig hvort leikbrot hafi verið framið í aðdragandanum. Einnig má nýta kerfið til að skoða atvik sem snúast um hvort dómaranum beri að dæma vítaspyrnu eða ekki, eða sýna eða sýna ekki rautt spjald. Hér ber þó aftur að hafa í huga að málið snýst eingöngu um "augljós" atvik og hvað brottvísanir varðar alls ekki um hvort dómaranum hafi yfirsést að sýna leikmanni seinna gula spjaldið. Réttmæti áminninga (gula spjaldsins) fellur þannig ekki undir atvik sem nýta má VAR-kerfið til að sannreyna, nema hvað "mannavilt" áhrærir, en leiðrétta má slík tilfelli hvort sem um er að ræða gul eða rauð spjöld sýnd röngum leikmönnum.

Af öðrum tillögum sem voru til afgreiðslu á fundinum skal helst nefna heimildina til þess að leyfa viðbótar skiptingu (4. sktiptinguna) í framlengingum bikarleikja og annarra leikja sem framlengja þarf. Þessi tillaga hefur lengi verið uppi á borðinu, bæði af læknisfræðilegum og taktískum ástæðum, en með þessari ákvörðun er mótshöldurum það nú í sjálfsvald sett hvort þeir setji ákvæði þess efnis í mótareglur sínar. Þá hafa nú einnig verið sett í lög skýrari ákvæði (og víðtækari heimild) um hvernig nýta megi rafræn hjálpartæki sem gefa rauntíma upplýsingar um ýmsa tölfræði leikmanna til þjálfaranna á boðvanginum (lófatölvur, farsíma o.s.frv.). Hér er um að ræða hjálpartæki sem þjálfarar hafa lagt mikla áherslu á að fá að nýta við sína vinnu á meðan á leikjum stendur, en óháð því hvort menn séu sammála eða ósammála um hvort heimila eigi notkun slíkra tækja í leikjum er það engu að síður til mikilla bóta að í lögunum sé nú að finna skýr ákvæði um hvað sé heimilt og hvað ekki í þeim efnum.

Breytingar þær sem gerðar eru á ársfundum IFAB taka alla jafna gildi 1. júní ár hvert, en eins og knattspyrnuaðdáendur þekkja hafa þær undanfarin ár verið talsvert umfangsmeiri en nú er raunin, endaer hefð fyrir því hjá IFAB að ráðast ekki í umfangsmiklar lagabreytingar á HM-ári.

Síðustu árin hefur Ísland fengið heimild til þess hjá IFAB að "þjófstarta" í innleiðingu lagabreytinganna sem þannig hafa tekið gildi hjá okkur f.o.m. fyrsta leik bikarkeppninnar í aprílmánuði ár hvert. Ef að líkum lætur verður sá háttur einnig hafður á í ár, en skv. því mun eina áberandi breytingin á knattspyrnulögunum hvað varðar fótboltann hér innanlands felast í fjórðu skiptingunni í framlengingu (þ.e. ákveði stjórn KSÍ að nýta sér þá heimild).
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner