Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   mán 12. september 2016 15:45
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Glataðir laugardagar
Elvar Geir Magnússon
Elvar Geir Magnússon
Bikarúrslitaleikurinn þarfnast endurskoðunar.
Bikarúrslitaleikurinn þarfnast endurskoðunar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það þarf átak til að fá fleiri hlutlausa á bikarúrslitaleikina.
Það þarf átak til að fá fleiri hlutlausa á bikarúrslitaleikina.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Það var döpur mæting á úrslitaleik Vals og ÍBV.
Það var döpur mæting á úrslitaleik Vals og ÍBV.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ég hef farið á slatta af laugardagsleikjum í Pepsi-deildinni í gegnum tíðina. Allir leikirnir eiga það sameiginlegt að mætingin hefur verið döpur. Það er bara löngu sannað að laugardagar eru vondir dagar fyrir íslenska áhorfendur að mæta á völlinn. Sem betur fer er það ekki oft sem leikið er í efstu deild á þessum dögum.

Á laugardaginn var ég á leik KR og ÍBV. Áhorfendafjöldinn náði ekki 500 manns.

Kjarninn í þessum pistli er: Af hverju erum við að láta bikarúrslitaleiki fara fram á þessum vonda leiktíma? Leik sem talað er um sem stærsta leik hvers árs í íslenskum fótbolta.

Það er reynt að forðast það að spila leiki í Pepsi-deildinni á laugardögum. Það er kominn tími til að færa bikarúrslitin á leiktíma þar sem líklegra er að fá fólk á völlinn. Á leiktíma þar sem fjölskyldur eru ekki að fylla sumarbústaði á besta tíma ársins.

Mætingin á síðasta bikarúrslitaleik karla var hreinlega vond (3.500). Það verður að fara í átak til að gera leikinn að viðburði sem fótboltaáhugafólk hópast á, sama þó þeirra lið sé ekki að keppa til úrslita. Viðburð á tíma þar sem samkeppnin við aðra afþreyingu er ekki of mikil.

Ég er mótfallinn því að færa bikarúrslitin aftur sem lokaleik tímabilsins þegar sólin er farin að hafa takmarkaða viðveru. Það var ekki að virka. Ég held að stærsta vandamálið sé vikudagurinn sem leikið er.

Sunnudags- og fimmtudagskvöld eru dæmi um leikdaga sem hafa gefist vel í Pepsi-deildinni. Þetta eru dagar sem horfa á til varðandi bikarúrslit. Flóðljósaleikur á fimmtudagskvöldi klukkan 20. Matarvagnar fyrir utan völlinn sem opna kl. 18. Hvernig hljómar það? Það er allt svo fallegt við fótbolta í flóðljósum.

Ef félag sem er utan af landi kæmist í bikarúrslitin væri þá möguleiki á að hafa leikinn síðla sunnudags frekar.

Vissulega ekki fullkominn leiktími. Sigurliðið getur ekki gert allt brjálað á B5 um kvöldið með stuðningsmönnum sínum. En kostirnir eru bara svo miklu fleiri en gallarnir. Vinnuveitendur sýna vonandi skilning þó menn séu ekki í besta standi daginn eftir að liðið þeirra varð bikarmeistari. Sálin er allavega tindrandi björt.

Ef félag sem er utan af landi kæmist í bikarúrslitin væri möguleiki á að endurskoða dagsetninguna.

Önnur hugmynd: Í umferðinni fyrir bikarúrslit, á öllum leikjum, gefst vallargestum sem borga sig inn á vellina tækifæri til að borga smá aukalega og fá þá miða á bikarúrslitaleikinn.

Það er kominn tími til að gera bikarúrslitin að alvöru viðburði. Verð svekktur ef þetta verður allavega ekki rætt á næsta ársþingi KSÍ!
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner