Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 12. október 2015 14:58
Alexander Freyr Tamimi
skrifar frá Konya
Arda Turan: Óska Íslendingum til hamingju
Icelandair
Arda Turan ræði við fréttamenn rétt í þessu.
Arda Turan ræði við fréttamenn rétt í þessu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arda Turan, leikmaður Barcelona og landsliðsfyrirliði Tyrklands, sat fyrir svörum á blaðamannafundi rétt í þessu fyrir leikinn gegn Íslandi annað kvöld.

Tyrkland og Ísland mætast í undankeppni EM 2016 í Konya klukkan 18:45 annað kvöld að íslenskum tíma og er það síðasti leikur keppninnar. Turan byrjaði á að óska Íslandi til hamingju með að vera komið í lokakeppnina þegar.

„Ég vil óska Íslandi til hamingju. Þeir eiga þetta skilið, þeir hafa spilað frábærlega í þessari undankeppni og Íslendingar ættu að vera mjög stoltir,“ sagði Turan á blaðamannafundinum.

Hann býst við því að leikurinn í Konya verði gerólíkur 3-0 sigri Íslands á Laugardalsvelli í fyrstu umferðinni.

„Þessi leikur er mjög mikilvægur og verður í allt öðru andrúmslofti. Þessi leikur er mikilvægur fyrir okkur, en við berum virðingu fyrir Íslandi,“ sagði Turan, sem býst ekki við því að íslensku leikmennirnir slaki á í leiknum þó þeir séu komnir í lokakeppnina í Frakklandi.

„Hver sá sem spilar fótboltaleik spilar til að vinna og á mínum ferli man ég ekki eftir einum auðveldum landsleik. Þetta eru allt erfiðir leikir og allir leikmenn bera þjóðfánann í hjarta sínu á vellinum. Við reynum okkar besta, en vissulega er leikurinn mikilvægari fyrir okkur en Ísland, og ég vona að það skili sér inni á vellinum.“

Hann segir að hugur tyrkneska landsliðsins sé hjá fórnarlömbum hryðjuverkaárásarinnar í Ankara á dögunum sem kostaði um 100 manns lífið.

„Ég vil senda fyrir hönd liðsins samúðarkveðjur til allra Tyrkja, við vonum að þau látnu hvíli í friði. Við erum þéttur hópur hérna og elskum þjóð okkar og við finnum fyrir þessu í hjarta okkar,“ sagði Turan.
Athugasemdir
banner
banner