Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 12. október 2015 15:27
Elvar Geir Magnússon
Reynir Leós: Markmiðið að búa til ferskt og öflugt lið
Reynir Leósson er tekinn við HK.
Reynir Leósson er tekinn við HK.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Reynir Leósson var í gær kynntur sem nýr þjálfari HK og lætur hann því af starfi sínu sem aðstoðarþjálfari Fylkis. HK hafnaði í áttunda sæti 1. deildarinnar í sumar.

Reynir hefur haft það sem markmið að verða aðalþjálfari.

„Þetta er skref sem ég hef alltaf ætlað að taka. Mér hefur verið boðið áður að verða aðalþjálfari en hef verið að bíða eftir rétta tímapunktinum og rétta félaginu. Ég er spenntur fyrir þessu verkefni og sá metnaður og framtíðarsýn sem HK hefur heillaði mig," segir Reynir.

„Aðdragandinn að þessu var frekar stuttur. HK talaði við mig þegar félagið þurfti að finna nýjan þjálfara í staðinn fyrir Þorvald Örlysson og viðræður gengu vel fyrir sig."

Reynir segist hafa mikinn metnað sem þjálfari og er ákveðinn í að ná góðum árangri með HK-inga.

„Fyrsta verkefnið hjá mér er bara að kynnast þeim leikmönnum sem eru þarna. Ég veit að HK hefur fullt af ungum og efnilegum drengjum sem ég vil gefa tækifæri. Markmiðið er að búa til öflugt og ferskt lið. Ég mun fyrsta líta á þá leikmenn sem eru fyrir hjá félaginu en það er alveg ljóst að það þarf líka að styrkja liðið og við munum skoða hvaða möguleikar eru í því," segir Reynir.

Meðal leikmanna sem hafa verið orðaðir burt frá HK eru Beitir Ólafsson markvörður og Guðmundur Atli Steinþórsson sóknarmaður en þeir hafa verið meðal bestu leikmanna 1. deildarinnar síðustu ár.

„Ég legg mikla áherslu á að reyna að halda þeim. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig staðan er með þá enda var ég bara að taka við þessu starfi í gær. En ég vonast svo sannarlega til þess að þeir verði áfram með HK og munu þá gegna veigamiklu hlutverki í liðinu," segir Reynir.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner