Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mán 12. október 2015 17:00
Magnús Már Einarsson
Þorvaldur Örlygs: Markmiðið að fara beint upp aftur
Þorvaldur Örlygsson.
Þorvaldur Örlygsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þorvaldur Örlygsson var á laugardag ráðinn þjálfari Keflvíkinga. Hann tekur við af Hauki Inga Guðnasyni og Jóhanni Birni Guðmundssyni sem stýrðu liðinu síðari hluta sumars.

„Þetta gekk mjög fljótt fyrir sig. Það tók ný stjórn við og hún hafði samband við mig til að kanna áhuga minn á að taka við þessu. Eftir að ég hafði hitt þá og fundað með þeim þá var ég mjög fljótur að ákveða að þetta væri eitthvað sem hentar mér. Ég er mjög sáttur við það," sagði Þorvaldur við Fótbolta.net í dag.

Keflvíkingar enduðu í neðsta sæti í Pepsi-deildinni í sumar en markmiðið er sett beint aftur upp að ári.

„Markmiðið er að reyna að smíða saman lið sem getur komist beint upp aftur. Það er ekkert launungarmál. Lið sem kemur niður eftir að hafa verið lengi í úrvalsdeild hlýtur að hafa það takmark að fara aftur upp. Samfélag eins og Keflavík vill eiga lið í efstu deild," sagði Þorvaldur sem segir ekki ljóst hvort hann muni styrkja hópinn mikið.

„Við ætlum fyrst og fremst að sjá þann mannskap sem er til staðar og einbeita sér að halda þeim kjarna. Síðan skoðum við hvort að það sé eitthvað hægt að gera til að gera liðið betra. Það eru allir í þeim leiðangri, hvort sem það eru Keflvíkingar eða aðrir."

Þorvaldur hefur undanfarin tvö tímabil þjálfað HK en hann hætti störfum þar fyrir rúmri viku.

„Fyrra árið var markmið að halda liðinu uppi og annað árið líka. Það tókst og gekk ágætlega, við náðum ágætis stigafjölda. Ég taldi að það væri gott fyrir þá að fá nýjan mann inn. Það kom ný stjórn rétt fyrir síðasta tímabil og mér fannst ágætt að þeir myndu fá nýjan mann til að halda áfram starfi sem hefur verið gert mjög vel í HK," sagði Þorvaldur.
Athugasemdir
banner
banner
banner