fim 12. október 2017 11:11
Elvar Geir Magnússon
Skýrist á næstu dögum hvort Ejub verði áfram með Ólsara
Hvað gerir Ejub?
Hvað gerir Ejub?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ejub er fyrsti kostur hjá okkur. Hann er núna í fríi en við höfum verið í sambandi við hann og þetta ætti að skýrast á næstu dögum," segir Jóhann Pétursson, nýr formaður Víkings í Ólafsvík.

Ekki er víst hvort Ejub Purisevic muni halda áfram þjálfun Ólafsvíkurliðsins en hann hefur náð mögnuðum árangri á þeim tíma sem hann hefur stýrt liðinu.

Jóhann segir að menn vilji ganga frá þjálfaramálunum sem fyrst. Ekkert sé víst varðandi leikmannamálin á meðan ekki sé ljóst hver verði þjálfari á næsta tímabili.

„Leikmenn vilja vita hver verður þjálfari og það er skiljanlegt. Við viljum klára þetta með Ejub sem fyrst," segir Jóhann sem viðurkennir að menn séu undirbúnir ef Ejub segir nei.

„Það eru nöfn á blaði hjá okkur en ekkert sem ég get gefið upp."

Ólsarar féllu úr Pepsi-deildinni í lokaumferð deildarinnar og leika því í Inkasso-deildinni á næsta tímabili.
Athugasemdir
banner
banner
banner