Franskir fjölmiðlar nota orðið „ráðgáta" í umfjöllun sinni um íslenska landsliðsmanninn Kolbein Sigþórsson. Fyrirsögn franska blaðsins L'Équipe um málið er „Sigþórsson er ekki fundinn".
Kolbeinn er samningsbundinn Nantes en sagt er að hann hafi ekki stigið fæti til Frakklands síðan lánsssamningi hans við Galatasaray var rift í desembermánuði. Þá hafi reynst ómögulegt að fá upplýsingar frá honum.
„Þessi strákur gerir alltaf það sem hann vill. En við höfum beðið hann um að koma til Nantes til að gangast undir læknisskoðun. Við getum ekkert gert við hann því hann biður ekki einu sinni um að fá útborgað," segir Waldemar Kita, stjórnarformaður Nantes.
Kolbeinn, sem er 26 ára, hefur ekkert spilað vegna hnémeiðsla síðan hann lék frábærlega með Íslandi á Evrópumótinu í Frakklandi. Hann var lánaður frá Nantes til Galatasaray eftir mótið en náði ekkert að leika fyrir tyrkneska liðið.
Fram kemur að fjölmiðlar hafi reynt að ná í Kolbein og umboðsmann hans, Andra Sigþórsson, án árangurs. Andri hefur ekki svarað símtölum Fótbolta.net undanfarna daga.
Athugasemdir