Þriðju umferð Pepsi-deildar karla lýkur í kvöld þegar Breiðablik tekur á móti Víkingi Reykjavík klukkan 20 á Kópavogsvelli. Blikar eru með þrjú stig en Víkingar eitt.
Arnar Grétarsson, þjálfari Kópavogsliðsins, hefur lokið afplánun leikbanns og verður á hliðarlínunni í kvöld.
„Það hefur verið erfitt þessa fyrstu tvo leiki að horfa á úr stúkunni. Maður vill nálægðina, geta verið með strákunum frá upphafi til enda leiks. Vonandi voru þetta mínir síðustu leikir í stúkunni," segir Arnar.
„Víkingar hafa verið að spila virkilega vel þó þeir séu aðeins með eitt stig. Það er alltaf meiri pressa að ná fyrsta sigrinum eftir því sem maður fer lengra inn í mót. Að sama skapi viljum við taka þátt í að vera í efri endanum og á von á hörkuleik."
Sóknarmaðurinn Jonathan Glenn kemur einnig úr leikbanni. Byrjar hann í kvöld?
„Það kemur í ljós. Það er ekki kjörstaða að vera í banni, það vilja allir spila. Hann styrkir hópinn og það styrkir okkur að fá hann aftur."
Leikurinn í kvöld er á sérstökum tíma fyrir Pepsi-deildina, klukkan 20 á föstudagskvöldi.
„Ég vona að það verði góð mæting. Það hefur verið talað um hvort það eigi að nota föstudaga fyrir efstu deild. Ég vona innilega að við verðum með fulla stúku," segir Arnar en viðtalið má sjá í heild í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir