mið 13. september 2017 20:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Neymar er bara eins og hver annar leikmaður"
Neymar og Ralston eiga hér í orðaskiptum.
Neymar og Ralston eiga hér í orðaskiptum.
Mynd: Getty Images
Hinn 18 ára gamli Anthony Ralston vakti mikla athygli í gær. Hann spilaði með Celtic í 5-0 tapi gegn franska stórliðinu Paris Saint-Germain, en hans verkefni var að passa það að Brasilíumaðurinn Neymar myndi ekki sýna sínar bestu hliðar.

Hann lét Neymar hafa fyrir hlutunum og lenti af og til í orðaskiptum við þann dýrasta í heimi.

Á einum tímapunkti hló strákurinn að Neymar.

„Ég óttaðist hann ekki neitt," sagði Ralston um Neymar. „Hann er bara eins og hver annar leikmaður."

„Ég setti hann ekki á stall. Ég lét hann finna fyrir mér, ég gerði það snemma og það er það sem þú þarft að gera gegn svona leikmönnum," sagði hann enn fremur.

Eftir leik leit út fyrir það að Neymar hefði neitað að taka í höndina á Ralston, en hann segir að svo hafi ekki verið.

„Ég gekk fram hjá honum, en ég rétti ekki fram höndina. Þetta skiptir mig engu máli."
Athugasemdir
banner
banner
banner