fös 13. október 2017 12:40
Magnús Már Einarsson
Jói Kalli: Hefur alltaf verið draumur
Jóhannes Karl var þjálfari árins í Inkasso-deildinni.
Jóhannes Karl var þjálfari árins í Inkasso-deildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Skagamenn ætla að byggja grunninn áfram á heimamönnum.
Skagamenn ætla að byggja grunninn áfram á heimamönnum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þegar þessi var staða kominn upp og möguleikinn stóð til boða að taka við skagaliðinu þá var þetta ótrúlega fljótt að gerast. Ég var erlendis í seinu sumarfrí en eftir að ég kom heim þá gekk þetta fljótt fyrir sig," sagði Jóhannes Karl Guðjónsson við Fótbolta.net í dag en hann var í gær ráðinn þjálfari ÍA.

„Fyrir mér er þetta frábært tækifæri sem þjálfari að fá að þjálfa þetta sögufræga félag og stóra félag á Íslandi. Fyrir utan það þá er þetta mitt uppeldisfélag og minn heimabær. Ég er mjög spenntur að fá þetta tækifæri til að þjálfa knattspyrnufélagið ÍA og er virkilega stoltur af því tækifæri."

Spenntur fyrir að stýra ÍA á Akranesvelli
Jóhannes Karl ólst upp hjá ÍA og hann segir langþráðan draum vera að rætast með því að þjálfa liðið.

„Ég er spenntur að stýra ÍA í fyrsta leik á Akranesvelli. Það hefur alltaf verið draumur eins og það var draumur að fara og spila í atvinnumennsku. Ég ólst upp við það að fylgjast með pabba (Guðjóni Þórðarsyni) þjálfa skagaliðið og hafði alltaf þann draum að geta einhverntímann fetað í þau fótspor. Þó að það sé langt í fyrsta leik þá er maður samt spenntur fyrir því að stýra ÍA á Akranesvelli."

Jóhannes Karl var valinn þjálfari ársins í Inkasso-deildinni í sumar eftir að hafa stýrt HK í 4. sætið. Er erfitt að fara frá HK núna?

„Ég átti mjög góðan tíma hjá HK og vann með mörgum góðum leikmönnum og fólki þar. Það er alltaf erfitt að yfirgefa svona staði en við skiljum í góðu. Það er góður hópur í HK, góður andi og framtíðin er björt hjá HK. Það er alltaf skrýtið að fara frá félagi sem maður hefur verið hjá í þónokkurn tíma en núna horfir maður fram á veginn."

Byggja áfram á heimamönnum
Skagamenn féllu úr Pepsi-deildinni í sumar og leika því í Inkasso-deildinni að ári. Er markmiðið ekki sett á að fra beint aftur upp?

„Það er ákveðin stefna sem við ætlum að fylgja sem félag. Við ætlum að byggja áfram á okkar heimamönnum og byggja grunninn þannig. Grunnurinn á að vera heimamenn og við viljum gefa ungum og efnilegum skagamönnum tækifæri á að spila í meistaraflokki. Það er gríðarlega stórt verkefni og við ætlum að hald okkur við það. Knattspyrnufélagið ÍA er líka þannig félag að við hugsum hátt og öllum skagamönnum finnst að ÍA eigi að vera í efstu deild og þar viljum við vera," sagði Jóhannes Karl en hann vonast til að halda sama kjarna í leikmannahópnum.

„Við ætlum að reyna að byggja á þessum mönnum sem eru til staðar. Númer 1, 2 og 3 er að tryggja að þessi leikmannahópur verði áfram til að við getum byggt ofan á það. Forgangstatriðið er að tryggja áframhald hjá þeim sem eru í hópnum."

Ánægður með að fá Sigga Jóns inn
Reynsluboltinn Sigurður Jónsson verður aðstoðarþjálfari með Jóa Kalla. „Siggi er búin að vinna fyrir félagið í svolítinn tíma og það er frábær fengur fyrir okkur að hafa svona mann sem er með mikla reynslu sem leikmaður og þjálfari. Það er gulls ígildi fyrir skagann. Að fá hann inn í þjálfarateymi meistaraflokks karla er frábært fyrir hópinn og mig sem ungan þjálfara," sagði Jói Kalli við Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner