Barcelona vill Díaz frá Liverpool - Úlfarnir skoða markverði - City til í að hlusta á tilboð í Grealish
   fös 13. október 2017 16:45
Þórður Már Sigfússon
Laugardalsvöllur getur byggst upp á þrjá vegu
Laugardalsvöllur.
Laugardalsvöllur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Laugardalsvöllur.
Laugardalsvöllur.
Mynd: Vefur KSÍ
Núverandi þjóðarleikvangur Lúxemborgar.
Núverandi þjóðarleikvangur Lúxemborgar.
Mynd: Luxemburger Post
Tölvuteiknuð mynd af nýjum þjóðarleikvangi Lúxemborgar í knattspyrnu.
Tölvuteiknuð mynd af nýjum þjóðarleikvangi Lúxemborgar í knattspyrnu.
Mynd: BENG
Unnið er út frá þremur mismunandi sviðsmyndum varðandi stækkun Laugardalsvallar en enn sem komið er hefur engin ákvörðun verið tekin um framtíðaruppbyggingu leikvangsins. Þetta kom fram í Morgunblaðinu í fyrradag.

Stjórnmálakrísan erfiðar málið
Pétur Marteinsson, verkefnastjóri hjá ráðgjafafyrirtækinu Borgarbragi, segir að málið hafi verið í góðum farvegi áður en ríkisstjórnin baðst lausnar í síðasta mánuði.

„Áður en þessi ríkisstjórn sprakk var búið að kynna þetta fyrir KSÍ, borginni, ráðherrum og formönnum flokkanna,“ sagði Pétur í samtali við mbl.is.

Núverandi óvissa í íslenskum stjórnmálum gerir það að verkum að ekkert verður aðhafst í málum Laugardalsvallar fyrr en ný ríkisstjórn verður mynduð.

Þá er óvíst hvort næsta ríkisstjórn sýni uppbyggingu á Laugardalsvelli áhuga og er því hætta á að verulegur dráttur geti orðið á ákvörðunartöku um málið.

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, segir að brýnt sé að taka ákvörðun sem fyrst í ljósi þess að leikjafyrirkomulag nýrrar Þjóðadeildar gerir ráð fyrir leikdögum í nóvember og mars. Sú staða gæti því skapast að ókleift væri að spila hérlendis á þeim leikdögum sökum slæmra veðurskilyrða.

„Það er auðvitað staða sem enginn kærir sig um. Við verðum að gera eitthvað,“ sagði Guðni við Mbl.is.

Þrjár sviðsmyndir
Þrír uppbyggingarmöguleikar koma til greina á Laugardalsvellinum samkvæmt Morgunblaðinu en fyrsta sviðsmyndin gerir ráð fyrir að Laugardalsvöllur fengi andlitslyftingu. Önnur sviðsmyndin lýtur að því að Laugardalsvöllur verði einungis knattspyrnuleikvangur með stúku allan hringinn. Hlaupabrautin myndi því hverfa á braut. Þriðja sviðsmyndin og sú sem gerir ráð fyrir mestri uppbyggingu á svæðinu, byggist á því að reistur yrði yfirbyggður fjölnota leikvangur. Í þess konar mannvirki er hægt að hýsa stóra tónleika, ráðstefnur og sýningar auk þess sem þar yrði heimavöllur landsliða Íslands í knattspyrnu, að því er fram kemur í Morgunblaðinu.

Svo virðist sem að fyrsta sviðsmyndin geri ráð fyrir nánast óbreyttu útliti Laugardalsvallar og að hlaupabrautin verið áfram á sínum stað. Leikvangurinn muni fá þó andlitslyftingu auk þess sem búninga- og salernisaðstaða verði bætt. Nýtt dren yrði lagt í völlinn og hiti lagður undir hann. Óvíst er hvort sætum yrði fjölgað. Kostnaður þess konar framkvæmda er áætlaður um nokkur hundruð milljónir króna.

Önnur sviðsmynd felst í því að gera Laugardalsvöll að sérhæfðum knattspyrnuleikvangi. Hlaupabrautin yrði fjarlægð og áhorfendastúka myndi umlykja allan völlinn. Ekki er greint frá því hversu mikil sætaaukningin yrði.

Þriðja og íburðarmesta sviðsmyndin gerir ráð fyrir fjölnota leikvangi með opnanlegu þaki. Í því tilviki er gert ráð fyrir tvölfaldri fjölgun áhorfendasæta og myndi sá völlur því rúma um 20 þúsund áhorfendur.

Fram kemur í Morgunblaðinu að ef ákveðið yrði að reisa fjölnota yfirbyggðan leikvang, væri áætlaður framkvæmdartími um 18 mánuðir til tvö ár.

Lúxemborg að reisa sérhæfðan knattspyrnuleikvang
Á meðan óvissa ríkir í uppbyggingarmálum Laugardalsvallarins hefur smáríkið Lúxemborg hins vegar riðið á vaðið og hafið framkvæmdir að nýjum þjóðarleikvangi í knattspyrnu.

Gamli þjóðarleikvangurinn, Stade Jozy Barthel, líkist Laugardalsvellinum að mörgu leyti en hlaupabraut hverfist um knattspyrnuvöllinn. Hann mun í framtíðinni nánast eingöngu nýtast undir frjálsar íþróttir.

Nýji leikvangurinn mun rúma um 2000 fleiri sæti en gamli leikvangurinn sem er um 20% sætisaukning. Það vekur óneitanlega athygli að þrátt fyrir að einungis átta landsleikir hafi selst upp á Stade Jozy Barthel frá árinu 2006, eða í um 21,6% tilvika, muni nýji leikvangurinn rúma 20% fleiri áhorfendur en fyrirrennarinn.

Áætlanir gera ráð fyrir að kostnaður við framkvæmdirnar muni nema um sjö og hálfum milljarði íslenskra króna.
Athugasemdir
banner
banner
banner