Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
banner
   þri 14. febrúar 2017 12:12
Elvar Geir Magnússon
Bíll forsetans var sprengdur upp
Daniele Sebastiani, forseti Pescara.
Daniele Sebastiani, forseti Pescara.
Mynd: Getty Images
Pescara er að eiga eitt versta tímabil í sögu ítölsku A-deildarinnar en liðið hefur aðeins níu stig á botninum. Um helgina mætti liðið Torino sem var án sigurs í sex leikjum í röð. Torino var komið 5-0 yfir eftir rúman klukkutíma og Massimo Oddo, þjálfari Pescara, var með tárin í augunum.

Í morgun vaknaði forseti Pescara, Daniele Sebastiani, við mikinn hvell í innkeyrslunni við heimili sitt. Bíllinn hans stóð í ljósum logum eftir að hafa verið sprengdur upp.

Talið er að skemmdarvargurinn komi úr hópi stuðningsmanna Pescara sem hefur mótmælt forsetanum og liðinu á tímabilinu.

Harðkjarna stuðningsmenn Pescara mættu með borða með áletruninni „Skammist ykkar!" þegar leikmenn liðsins mættu á jólakvöldverð fyrir áramót. Slegið og sparkað var í bíla leikmanna og starfsliðsins. Heimtað var að jólakvöldverðinum yrði aflýst því það var ekkert til að fagna.

Sebastiani hefur viðurkennt að hann hafi íhugað að stíga úr forsetastólnum en mikil óánægja er með ákvarðanir hans í leikmannamálum. Sérstaklega hefur varnarleikurinn verið höfuðverkur en Pescara hefur fengið 55 mörk á sig.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner