Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 14. febrúar 2017 14:30
Magnús Már Einarsson
Hagsmunasamtök neðrideildarfélaga senda yfirlýsingu
Guðjón Bjarni Hálfdánarson formaður HSN.
Guðjón Bjarni Hálfdánarson formaður HSN.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Viðar Halldórsson var í viðtali í Akraborginni í gær.
Viðar Halldórsson var í viðtali í Akraborginni í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hagsmunasamtök neðrideildar félaga (HSN) hafa sent frá sér yfirlýsingu eftir viðtal við Viðar Halldórsson, formann aðalstjórnar FH, í Akraborginni í gær.

Viðar sagði meðal annars að félög í neðri deildunum sem hafa ekki yngri flokka eigi ekki að hafa atkvæðisrétt á ársþingi KSÍ.

Sjá einnig:
Vill að ákveðin félög í neðri deildum fái ekki atkvæðisrétt
Lárus: Viðar talar á niðrandi hátt og af töluverðri vanþekkingu

Yfirlýsingin frá HSN
Hagsmunasamtök neðrideildar félaga (HSN) vilja koma eftirfarandi á framfæri, vegna orða Viðars Halldórssonar, formanns FH, í útvarpsþættinum Akraborginni í gær, þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni að neðrideildar félög sem ekki hafa barna- og unglingastarf eigi ekki að hafa atkvæðisrétt á ársþingi KSÍ.

Vert er að hafa í hyggju mismunandi stöðu margra þeirra liða sem í neðri deildunum eru, þar sem sum eiga þess kost að bjóða upp á barna- og unglingastarf en önnur ekki. Þau félög sem ekki bjóða slíkt eru í mjög mörgum tilvikum venslafélög annarra eldri félaga, eða stofnuð af eða í kringum leikmenn sem fá ekki tækifæri með uppeldisfélagi sínu en vilja engu að síður halda áfram knattspyrnuiðkun og keppni á vettvangi KSÍ.

Stjórnir þessara félaga, sem og leikmennirnir sjálfir, vinna mjög óeigingjart starf með hagsmuni knattspyrnunnar á Íslandi að leiðarljósi. Þetta fólk er tilbúið að leggja á sig mikla vinnu til að tryggja framgang liða sinna og leikmanna sem þar spila.

Í ljósi þess mikla starfs sem unnið er í neðri deildum á Íslandi af fagfólki sem þar kemur að, var ákveðið að stofna HSN, svo rödd þessara félaga heyrðist betur á vettvangi íslenskrar knattspyrnu, og til að styrkja tengsl þeirra við KSÍ með það að markmiði að bæta knattspyrnuna í landinu. Krafturinn sem býr í neðrideildar félögum er vannýtt auðlind innan KSÍ og mikilvægur hluti áframhaldandi uppbyggingar knattspyrnunnar á Íslandi, ekki síst í hinum dreifðari byggðum. Því væri fásinna að reyna að draga úr vægi þeirra með því að takmarka atkvæðarétt og aðra lýðræðislega þátttöku í starfi knattspyrnuhreyfingarinnar.

Líkt og með allt annað, hvort sem er innan KSÍ eða annarstaðar, er hollt og gott að endurskoða hlutina. Því var ágætt að á nýafstöðnu þingi KSÍ skyldi samþykkt einróma að endurskoða skuli regluverk KSÍ. Mikilvægt er í allri umfjöllun að sýna virðingu gagnvart öllum þeim sem leggja mikla vinnu í íslenska knattspyrnu, og vanda orðaval í slíkri umfjöllun allri. HSN mun hafa slíkt áfram að leiðarljósi og vonast eftir sambærilegri nálgun annarra aðila sem tjá sig um íslenska knattspyrnu.

F.h. Hagsmunasamtaka neðrideildar félaga,
Guðjón Bjarni Hálfdánarson
Athugasemdir
banner
banner