Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   lau 14. apríl 2018 09:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Lilja, Freyja og Mia Gunter með KR í sumar (Staðfest)
Lilja Dögg er komin í KR.
Lilja Dögg er komin í KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KR hefur verið að styrkja sig fyrir átökin í Pepsi-deild kvenna. Bojana Besic tók við liðinu af Eddu Garðarsdóttur eftir síðasta sumar og hún hefur verið að fá til sín leikmenn.

KR-ingar hafa orðið fyrir skakkaföllum og til að mynda misst Hólmfríði Magnúsdóttur sem er að fara að eignast barn.

Því hefur verið samið við nokkra leikmenn en til Vesturbæjarfélagsins í vetur hafa komið, hingað til, serbneska landsliðskonan Tijana Krstic, Mónika Hlíf Sigurhjartardóttir, Freyja Viðarsdóttir, Lilja Dögg Valþórsdóttir og Mia Celestina Annette Gunter.

Lilja Dögg er reynslumikill varnarmaður sem spilaði síðast með Val í Pepsi-deildinni árið 2016. Hún hefur áður leikið með KR, frá 2005 til 2012, en auk þess hefur hún verið hjá Breiðablik, Aftureldingu, HK/Víkingi, Stjörnunni og Þór/KA/KS á ferli sínum.

Freyja Viðarsdóttir er aðeins reynsluminni en Lilja Dögg en þó reynslumikil. Freyja hefur rétt eins og Lilja áður leikið með KR, frá 2008 til 2013, en hún var síðast hjá Fylki. Freyja er miðjumaður.

Þá er miðvallarleikmaðurinn Mia Celestina Annette Gunter komin til KR en hún spilaði síðast með Kolding í Danmörku.

KR endaði í áttunda sæti Pepsi-deildar kvenna á síðasta tímabili en úr liðinu frá því í fyrra eru farnar Ásdís Karen Halldórsdóttir og Guðrún Karítas Sigurðardóttir í Val, Guðrún Gyða Haralz aftur í Breiðablik, Harpa Karen Antonsdóttir var lánuð í Hauka, Elísabet Guðmundsdóttir og Mist Þormóðsdóttir Grönvold fóru í Fjölni og Sigríður María S Sigurðardóttir hefur tekið sér pásu frá fóbolta. Eins og fyrr segir spilar Hólmfríður Magnúsdóttir ekkert í sumar þar sem hún er að fara að eignast barn.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig KR kemur undan vetri en fyrsti leikur liðsins í Pepsi-deildinni í sumar verður gegn ÍBV 4. maí.
Athugasemdir
banner
banner
banner