Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   fim 14. september 2017 11:00
Magnús Már Einarsson
Eftirminnilegustu atvik Eiðs Smára - Mögnuð bílferð í El Clasico
Eiður og Hannes voru herbergisfélagar í landsliðinu.
Eiður og Hannes voru herbergisfélagar í landsliðinu.
Mynd: Instagram - Hannes Þór Halldórsson
Eiður varð tvívegis enskur meistari með Chelsea.
Eiður varð tvívegis enskur meistari með Chelsea.
Mynd: Getty Images
Eiður Smári Guðjohnsen tilkynnti í síðustu viku að hann hafi ákveðið að leggja skóna á hilluna eftir farsælan feril.

Eiður, sem verður 39 ára á morgun, er markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins frá upphafi. Á mögnuðum ferli sínum vann hann meðal annars stóra titla með Chelsea og Barcelona.

Fótbolti.net hefur fengið nokkra aðila til að velja eftirminnilegasta augnablikið á ferli Eiðs Smára. Hér má sjá hvað Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmarkvörður, hafði að segja en hann og Eiður voru lengi herbergisfélagar í landsliðinu.

Hannes Þór Halldórsson
Það fyrsta sem kemur upp í hugann er hjólhestaspyrnan. Hún hefur verið notuð það oft í auglýsingum og umfjöllunum um Eið að hún er greipt við ímynd hans. Stærsta afrek ferilsins hlýtur þó að vera Englandsmeistaratitillinn 2005 þar sem Eiður var lykilmaður í frábæru liði. Einnig það að fá samning hjá Barcelona og spila yfir 100 leiki, það er klikkað afrek.

Árið 2008 við gerð Atvinnumannanna okkar varð ég þess heiðurs aðnjótandi að sitja í bíl með Eiði á leiðinni á Camp Nou þar sem hann var að fara að spila El Clasico í byrjunarliði. Það var algjörlega magnað að verða vitni að þessu og sjá með eigin augum hversu stór íþróttamaður hann væri orðinn. Á þessum tíma var ég nýbyrjaður að spila í Pepsi deildinni og þarna varð til markmið sem stimplaðist í hausinn á mér. Ég yrði að ná að spila landsleik með Eiði Smára til þess að geta státað mig af því við barnabörnin að ég hefði spilað með honum. Það var svo nokkrum árum seinna þegar ég var valinn í landsliðshóp í fyrsta skipti að hann pikkar í bakið á mér með herbergislykli og segir "gamli, þú dast í lukkupottinn".

Við urðum herbergisfélagar í einhver 4 ár hjá landsliðinu og það var alltaf jafn mikill heiður að spila með honum. Hann var einn af lykilþáttunum í því að við skyldum smella saman sem lið í seinni hluta undankeppninnar fyrir HM 2014 þegar hann kom inná seint í leiknum á móti Sviss og byrjaði síðan alla leiki eftir það í riðlinum, sem voru okkar best spiluðu leikir í undankeppninni. Hann tók svo nýju hlutverki með landsliðinu af mikilli fagmennsku í kringum Evrópumótið, studdi leikmenn, gaf af sér og gerði allt sem hann gat til að hjálpa liðinu að ná árangri. Eiður er sá leikmaður sem lykilmennirnir í landsliðinu í dag ólust upp við að líta upp til og ruddi brautina með því að opna dyr sem enginn íslenskur leikmaður hafði áður opnað. Hann er goðsögn í íslenskum fótbolta og það voru forréttindi að spila með honum.

Sjá einnig:
Eftirminnilegustu atvik Eiðs Smára - Sigurmarkið gegn Man Utd
Athugasemdir
banner
banner