Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   þri 14. október 2014 13:00
Magnús Már Einarsson
Grétar Rafn: Veltast um og vorkenna sjálfum sér
Icelandair
Grétar Rafn Steinsson.
Grétar Rafn Steinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Arjen Robben og félagar voru í basli í gær.
Arjen Robben og félagar voru í basli í gær.
Mynd: Ingólfur Hannes Leósson
Úr leiknum í gærkvöldi.
Úr leiknum í gærkvöldi.
Mynd: Ingólfur Hannes Leósson
Lars Lagerback.
Lars Lagerback.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Það er sérstaklega gaman að vera í Hollandi núna og sjá þá veltast um og vorkenna sjálfum sér," sagði fyrrum landsliðsmaðurinn Grétar Rafn Steinsson í samtali við Fótbolta.net í dag.

Grétar Rafn er búsettur í Hollandi þessa dagana og þar á bæ eru menn svekktir eftir 2-0 tapið gegn Íslendingum í gær.

,,Við spiluðum við Hollendinga á fullkomnum tíma. Það er óvissa í gangi hjá þeim og við fórum illa með þá. Við létum þá líta út fyrir að vera meðallið þrátt fyrir þeirra sterku framlínu. Þetta var virkilega sterkt."

,,Leikmenn trúðu því að þetta væri hægt. Ef maður horfir á hollenska liðið þá eru ekki mörg svæði sem við eigum ekki að geta ráðið við hjá þeim. Við skoruðum snemma og gátum varist vel í seinni hálfleik."

,,Varnarmenn Hollendinga panikuðu og fóru að spila löngum boltum. Það er eins heimskulegt og hægt er að spila háum boltum á Kára og Ragga í vörninni. Þeir panikuðu í vörninni eftir að þeir byrjuðu illa og náðu sér aldrei eftir það."


Bein leið fyrir Ísland til Frakklands?
Orðrómur hefur verið um Guus Hiddink, landsliðsþjálfari Hollendinga, sé valtur í sessi en liðið er einungis með þrjú stig eftir jafnmarga leiki í undankeppni EM í Frakklandi 2016. Grétar segir að Hollendingar muni jafnvel gera byltingu og byggja liðið upp á nýjan leik.

,,Menn ætla að hittast og ræða málin hjá knattspyrnusambandinu. Núna vilja þeir fá unga menn inn en á sama tíma hefur U21 árs landsliðið spilað mjög illa undanfarin ár. Það eru engar lausnir. Það er verið að vega og meta hvað eigi að gera næst."

,,Það kæmi mér ekki á óvart að þeir reyni að byrja upp á nýtt og eyðileggi um leið þessa keppni. Ef það á að breyta einhverju þá breyta Hollendingar öllu og það kæmi mér ekki á óvart að þeir muni slaka á. Ef Hollendingar taka upp á því að byggja upp núna þá tel ég að annað sætið sé okkar og það er bein leið til Frakklands,"
sagði Grétar en hann bendir þó á að erfiðir leikir bíði íslenska liðsins eins og gegn Tékkum,Tyrkjum og Hollendingum á útivelli.

,,Holland gæti saxað á okkur og jafnvel jafnað okkur á stigum eftir þessa leiki. Það getur ennþá allt gerst en ef að Hollendingar breyta öllu þá kæmi mér ekki á óvart að við myndum tryggja okkur áfram fyrr en síðar."

Hollendingum gekk of vel á HM
Hollendingar náðu í brons á HM í sumar en eftir að Louis van Gaal hætti með liðið var skipt um leikkerfi og lítið hefur gengið síðan þá.

,,Það góða og slæma við þetta allt saman er að liðinu gekk of vel á HM. Van Gaal gerði mönnum grein fyrir því að hafsentarnir væru ekki nógu góðir til að spila tveir. Þeir höfðu þrjá hafsenta og tvo wing-backa. "

,,Vandamálið byrjar í öftustu línu hjá markmanni og vörninni og það hefur áhrif fram á við. Þegar þú hefur áhyggjur af því hvað er að gerast fyrir aftan þig þá nærðu aldrei að spila áfram og boltinn kemur ekki eins hratt og örugglega til framherjanna."

,,Við spilum með tvo uppi sem spila mjög vel saman og loka á Nigel De Jong. Hann kemur djúpt að sækja boltann í stað þess að standa á milli strikerana okkar og miðjunnar. Þegar hann kemur djúpt þá geta strikerarnir okkar köttað út þeirra mann. Þá þurfa miðjumennirnir okkar bara að hafa áhyggjur af tveimur mönnum og kantmennirnir geta komið inn. Þeir spiluðu sig bara í vesen. Ef þeir hefðu spilað með tvo djúpa miðjumenn og einn númer tíu þá hefði þetta kannski litið öðruvísi út."


Lars hefur breytt öllu
Grétar Rafn segir að það að ráða Lars Lagerback sem landsliðsþjálfara árið 2011 hafi verið heillaspor hjá KSÍ.

,,Þetta snérist bara um að allir myndu hafa trú á að þetta væri hægt. Það þurfti að styrkja umhverfið og það hefur komið með Lars. Það var mikill hvalreki að fá Lars og hann hefur haft mikil áhrif á umhverfið. Við höfum alltaf átt góða leikmenn en óstöðugleikinn er farinn með skipulagi og breyttu hugarfari."

,,Við erum með leiðtoga sem þekkir ekkert annað en að fara á stórmót. Þegar einhver hefur svona ferilskrá og segist ætla á stórmót þá trúa leikmenn því og fara eftir því. Heimir er þetta back up sem hann er og allt teymið í kring er sterkt. Það er frábært að sjá þetta gerast,"
sagði Grétar glaður að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner