þri 14. nóvember 2017 19:23
Þórður Már Sigfússon
Daily Express: Skoska sambandið er með númerið hjá Heimi
Heimir Hallgrímsson er að verða stórt nafn í knattspyrnuheiminum.
Heimir Hallgrímsson er að verða stórt nafn í knattspyrnuheiminum.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Miklar vangaveltur eru nú í gangi í Skotlandi varðandi lausa landsliðsþjálfarastöðu þjóðarinnar í knattspyrnu eftir að Gordon Strachan sagði upp að lokinni undankeppni HM í síðasta mánuði.

Malky Mackay tók í kjölfarið tímabundið við stjórnartaumunum en ekki eru taldar miklar líkur á að hann verði ráðinn til frambúðar.

Ýmis nöfn hafa borið á góma í skoskum fjölmiðlum um hugsanlegan eftirmann Strachans en þrír þjálfarar eru taldir líklegastir til að hreppa hnossið samkvæmt breskum veðbönkum

Líklegast þykir að Michael O’Neill, landsliðsþjálfari Norður-Íra, fái starfið en Paul Lambert, sem hefur t.a.m. þjálfað Aston Villa og Blackburn, og Alex McLeish, sem þjálfaði m.a. Birmingham City um nokkurra ára skeið, eru einnig taldir vænlegir kostir.

Gordon Waddell, blaðamaður hjá Daily Express, er sammála því að O‘Neill yrði góður kostur í starfið en gefur lítið fyrir umræðuna um Lambert og McLeish.

Þess í stað nefnir hann þrjá kandídata til viðbótar við áðurnefndan O‘Neill sem væru efstir á blaði hjá honum ef hann væri formaður skoska knattspyrnusambandsins.

Waddell telur að Derek McInnes, stjóri Aberdeen, ætti að vera fyrsti valkostur í starfið en að öðrum kosti telur hann að Skotar eigi að ræða við O’Neill, Slaven Bilic, sem lét af störfum hjá West Ham fyrir stuttu, eða Heimi Hallgrímsson.

„Það ætti að vera raunhæfur möguleiki að ræða við Heimi Hallgrímsson,” skrifar Waddell sem virðist ekki gera sér grein fyrir því að engar líkur eru á því að Heimir myndi íhuga landsliðsþjálfarastarf Skotlands á þessum tímapunkti, í aðdraganda HM.

Waddell hælir Heimi í hástært og er ljóst að Eyjamaðurinn er mikils metinn innan knattspyrnuheimsins. Hann bætir auk þess við að Skotar ættu ekki að eiga í miklum erfiðleikum með að komast í samband við Heimi.

„Hann hefur verið ráðstefnugestur á vegum skoska knattspyrnusambandsins og þeir eru með númerið hjá honum,” skrifaði Waddell að lokum.
Athugasemdir
banner