fim 14. desember 2017 23:30
Ingólfur Stefánsson
„Rétt ákvörðun að dæma markið af"
Solanke fagnar markinu sem var síðar dæmt af
Solanke fagnar markinu sem var síðar dæmt af
Mynd: Getty Images
Liverpool og West Bromwich Albion gerðu markalaust jafntefli í ensku úrvaldsdeildinni á miðvikudag. Dominic Solanke sem kom inn á sem varamaður í leiknum hélt hann hefði tryggt Liverpool sigur á 82. mínútu leiksins en mark hans var dæmt af vegna þess að boltinn fór í hendi hans á leið í markið.

Dermot Gallagher fyrrum knattspyrnudómari segir að það hafi verið rétt ákvörðun hjá Paul Tierney að dæma markið af.

„Boltinn fór af hendi hans í markið, það er engin spurning. Boltinn breytir um stefnu. Vandamálið fyrir dómarann er að það er ekki í lagi fyrir leikmenn að skora með hendinni," segir Gallagher.

„Ég segi vandamál því að samkvæmt reglunum þarf leikmaðurinn að handleika boltann viljandi til þess að hendi sé dæmd en þær segja líka að það sé ekki leyfilegt að skora með hendinni. Ég held að dómarinn hafi engan annan kost í stöðunni en að dæma hendi."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner