Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mán 15. janúar 2018 07:45
Elvar Geir Magnússon
Ágúst Hlyns í ítarlegu viðtali í Danmörku
Ágúst í æfingaleik með aðalliði Bröndby.
Ágúst í æfingaleik með aðalliði Bröndby.
Mynd: Bröndby
Hinn ungi og efnilegi Ágúst Eðvald Hlynsson er í ítarlegu viðtali við dönsku vefsíðuna 3point.dk.

Þessi sautján ára leikmaður lék fjóra leiki í Pepsi-deildinni 2016 með Breiðabliki en er núna hjá Bröndby í Danmörku. Hann lék æfingaleik með aðalliði félagsins á dögunum.

Í viðtalinu segir Ágúst frá því þegar Arnar Grétarsson kallaði hann upp í æfingar hjá aðalliði Blika þegar hann var fimmtán ára.

„Þjálfarinn og pabbi minn sáu til þess að halda mér á jörðinni. Þjálfarinn hrósaði mér sjaldan en hann var sjálfur með reynslu sem leikmaður. Ég fór að vekja athygli en það hafði ekki mikil áhrif á mig," segir Ágúst meðal annars í viðtalinu.

Hann viðurkennir að dreyma um að spila fyrir A-landsliðið í framtíðinni.

„Það er að sjálfsögðu draumur minn. Fyrir sex til sjö árum þótti ekki merkilegt að vera fótboltamaður frá Íslandi en það er stærra núna vegna velgengni landsliðsins. Gylfi Sigurðsson, besti leikmaður Íslands, er frábær fyrirmynd fyrir yngri leikmenn. Hann var líka hjá Breiðabliki og fór svo í akademíu á Englandi."

Ágúst fór fyrst frá Breiðabliki í akademíu Norwich og þar gekk mjög vel í byrjun en eftir að breytingar urðu hjá félaginu og nýir menn tóku við stjórn akademíunnar fannst honum hann þurfa að færa sig um set. Það var þá sem hann fór til Bröndby.

Hann segir að lífið hjá danska félaginu sé gott og honum líði eins og heima. Hann æfir með unglingaliði Bröndby en tvisvar í viku með aðalliðinu.

„Maður fær að kynnast styrkleikanum þar og fer að hungra í meira," segir Ágúst.
Athugasemdir
banner