Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 15. janúar 2018 15:15
Elvar Geir Magnússon
Guðmundur Steinn: Heillandi að taka þátt í toppbaráttu
Guðmundur Steinn er 28 ára.
Guðmundur Steinn er 28 ára.
Mynd: Stjarnan
Í leik með Ólsurum í fyrra.
Í leik með Ólsurum í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sóknarmaðurinn Guðmundur Steinn Hafsteinsson skrifaði fyrir helgina undir samning við Stjörnuna í Garðabæ.

Þessi tíðindi komu nokkuð á óvart en fréttir höfðu borist af því að hann væri í viðræðum við Fylki og virtist hann vera kominn hálfa leið í Árbæinn.

„Ég get ekki sagt hversu langt það var komið en ég var búinn að heyra í Fylkismönnum og hitta þá nokkrum sinnum. Stjarnan hafði svo samband og sagði að þeim vantaði mann," segir Guðmundur Steinn en Stjarnan hafnaði í öðru sæti Pepsi-deildarinnar í fyrra.

Hann á væntanlega að fylla skarð Hólmberts Arons Friðjónssonar sem er á leið til Álasunds í Noregi.

„Það er mjög heillandi að vera kominn í Stjörnuna. Þetta er félag með metnað og það væri gaman að taka þátt í toppbaráttu eftir að hafa verið í fallbaráttunni síðustu ár."

Guðmundur Steinn átti flott tímabil í fyrra og skoraði átta mörk í átján leikjum Pepsi-deildinni fyrir Víking Ólafsvík sem féll úr deildinni. Ólsarar skoruðu ekki mikið en Guðmundur Steinn var öflugur.

„Já það gekk fínt hjá mér persónulega. Vonandi fær maður enn fleiri tækifæri til að skora nú þegar ég er kominn í lið sem sækir meira og er meira í því að stjórna leikjum."

Guðmundur Steinn hefur þegar hafið æfingar með Stjörnunni.

„Já ég er búinn að mæta á eina æfingu og fer á aðra í dag. Ég var ekki með í leiknum í .Net mótinu um helgina en kannski fær maður einhverjar örfáar mínútur á morgun (gegn ÍA). Ég hef ekki spilað fótbolta af ráði síðan í Pepsi-deildinni í fyrra svo maður fer skynsamlega af stað og aðeins hægar en aðrir."

Víkingur Ólafsvík hefur misst burðarása eftir að liðið féll úr Pepsi-deildinni og þurfa Ejub Purisevic og hans menn að setja saman nánast nýtt lið.

„Ég hef ekki mjög miklar áhyggjur af mínum gömlu félögum. Þeir þekkja það vel hjá félaginu að þurfa að bregðast við ýmsum aðstæðum og hafa áður þurft að púsla saman nýju liði. Jónas Gestur formaður er hættur og það er blóðtaka en annars eru þetta sömu kallarnir í kringum þetta. Það eru ansi margir farnir eftir fallið en ég hef fulla trú á því að Ejub setji saman öflugt lið og liðið verði áfram erfitt heim að sækja," segir Guðmundur Steinn að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner