Sóknarmaðurinn Magnús Björgvinsson og miðjumaðurinn Milos Zeravica verða ekki áfram hjá Grindavík en þetta staðfesti Óli Stefán Flóventsson, þjálfari liðsins, í samtali við Fótbolta.net í dag.
Magnús er uppalinn hjá Stjörnunni en þessi þrítugi leikmaður hefur leikið með Grindavík síðan árið 2011. Síðastliðið sumar skoraði hann tvö mörk í sextán leikjum í Pepsi-deildinni með liðinu.
Zeravica er miðjumaður frá Bosníu og Hersegóvínu en hann átti góða spretti með Grindavík í Pepsi-deildinni í fyrra.
Zeravica skoraði eitt mark í tuttugu leikjum í deildinni með Grindavík en hann hefur núna samið við Borac Banja Luka í heimalandinu.
Grindvíkingar eru ennþá í viðræðum um framlengingu á samningi við spænska framherjann Juanma Ortiz en hann hefur leikið með liðinu undanfarin tvö ár.
Þá á varamarkvörðurinn Maciej Majewski ennþá eftir að ganga frá samningi við félagið.
Athugasemdir