Barcelona vill Díaz frá Liverpool - Úlfarnir skoða markverði - City til í að hlusta á tilboð í Grealish
   mið 15. febrúar 2017 12:49
Magnús Már Einarsson
Ríkharður Jónsson látinn
Ríkharður Jónsson.
Ríkharður Jónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Úr einkasafni
Ríkharður Jónsson, fyrrum landsliðsmaður og landsliðsþjálfari Íslands, lést á Dvalarheimilinu Höfða í gær, 87 ára að aldri.

Ríkharður raðaði inn mörkum með ÍA á sínum tíma og varð margfaldur meistari með liðinu. Ríkharður skoraði 139 mörk í 185 leikjum með ÍA. Hann þjálfaði einnig liðið 1961-1963 og 1966.

Á ferli sínum með íslenska landsliðinu skoraði Ríkharður 17 mörk í 33 leikjum en hann var einungis 16 ára þegar hann var fyrst valinn í landsliðið. Ríkharður var markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins þar til Eiður Smári Guðjohnsen sló met hans árið 2007.

Ríkharður þjálfaði einnig íslenska landsliðið með hléum frá 1962 til 1971. Þá var Ríkharður formaður ÍA um árabil.

Eftir ferilinn var Ríkharður sæmdur æðstu heiðursmerkjum KSÍ auk þess sem honum var veitt fálkaorða íslenska lýðveldisins. Árið 2015 var Ríkharður síðan einnig tekinn inn í heiðurshöll ÍSÍ.

Af heimasíðu ÍA
Með Ríkharði er genginn mikill sómamaður og einn besti knattspyrnumaður Íslands fyrr og síðar. Ríkharður hóf að iðka knattspyrnu á unga aldri og þótti strax hafa mikla hæfileika. Hann hóf að leika með meistaraflokki ÍA 1946 þá aðeins 16 ára gamall og sama ár var hann valinn í landsliðhóp Íslands fyrir fyrsta landsleik Íslands.

Ríkharður fluttist til Reykjavíkur 1947 og nam þar málaraiðn og lék jafnfram með Fram næstu fjögur árin og varð Íslandsmeistari 1947 með liðinu. Að loknu námi þar fluttist hann að nýju til Akranes og tók þá við þjálfun Akranesliðsins jafnframt því að leika með því. Þá var hann rösklega 20 ára gamall. Hann byggði upp hið frábæra og goðsagnakennda gullaldarlið Skagamanna og á árunum 1951-1960 vann liðið sex meistaratitla. Það er athyglisvert þegar litið er til baka að Ríkharður hafi á þessum tíma verið þjálfari og lykilleikmaður liðsins og jafnfram landsliðsmaður og stundum líka landsliðsþjálfari. Jafnframt öllu þessu stundaði hann sitt ævistarf sem málararameistari, rak fyrirtæki sitt, hafði marga í vinnu og sló hvergi af sjálfur.

Ferill hans sem leikmanns var frábær. Hann lék með Akranesliðinu fyrst 1946 og síðan 1951-1966 og var jafnframt þjálfari þess 1951-1963 og síðan 1966. Alls lék hann 184 leiki og skoraði í þeim 136 mörk. Til marks um frábært markaskor hans má nefna að í lok ársins 1959 hafði hann leikið 50 deildarleiki fyrir ÍA og skorað í þeim 52 mörk. Eftir að leikmannsferli hans lauk hélt hann áfram að þjálfa Akranesliðið og það gerði hann flest árin til 1973 þegar hann lét staðar numið. Hann vann meistaratitilinn sem þjálfari Akranesliðsins 1970 og sama ár stýrði hann liðinu í fyrstu leikjum þess í Evrópukeppi. Ríkharður var fastagestur á leikjum ÍA og landsliðsins fram á síðusta ár og mikill áhugamaður um framgang knattspyrnunnar.

Ríkharður var mikill félagsmálamaður og kom víða við í þeim efnum. Hann var m.a. formaður ÍA um árabil og sat í bæjarstjórn Akranes um skeið. Ríkharður var margvíslegur sómi sýndur um æfina. Hann var sæmdur heiðurskross KSÍ, meðlimur í heiðurshöll ÍSÍ, heiðursfélagi bæði ÍA og KFÍA og hann var gerður að heiðursborgara á Akranesi 2008.

Ríkharður var mikill fjölskyldumaður. Eiginkona hans var Hallbera Leósdóttir sem lést 9 janúar sl. Börn þeirra eru fimm og í aldursröð Ragnheiður, Hrönn, Ingunn, Sigrún og Jón Leó.

Knattspyrnufélag ÍA þakkar Ríkharði af heilum hug hans störf fyrir knattspyrnuna á Akranesi og allan þann stuðning sem hann veitti á löngum tíma. Börnum þeirra og öðrum aðstandendum eru sendar hugheildar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Ríkharðs Jónssonar.


Athugasemdir
banner
banner