Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 15. febrúar 2018 17:43
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Stal fimm milljónum punda af konunni og keypti Portsmouth
Sulaiman Al Fahim. Hann ætlaði sér stóra hluti með Portsmouth. Nú er hann á leið í fangelsi.
Sulaiman Al Fahim. Hann ætlaði sér stóra hluti með Portsmouth. Nú er hann á leið í fangelsi.
Mynd: Getty Images
Sulaiman Al Fahim, fyrrum eigandi Portsmouth, hefur verið dæmdur í fimm ára fangelsi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum fyrir að stela fimm milljónum punda (um 700 milljónum íslenskra króna) af eiginkonu sinni. Peninginn notaði hann til að kaupa Portsmouth.

Al Fahim var eigandi Portsmouth í hvorki meira né minna en sex vikur árið 2009 áður en hann seldi félagið Ali Al Faraj.

Hinn 42 ára gamli Al Fahim var ekki viðstaddur í dag þegar hann var dæmdur til fimm ára fangelsisvistar.

Eiginkona Al Fahim komst ekki að ráninu fyrr en nokkrum árum síðar. Þegar hún hafði samband við bankastjórann gerði hann lítið annað í málinu en að tefja afgreiðslu þess.

Hún ákvað svo loksins að hafa samband við lögreglu, greinilegt að Al Fahim var með marga á sínu bandi til að aðstoða sig.

Bankastjórinn fékk einnig fimm ára fangelsisdóm.

Þegar Al Fahim átti Portsmouth var félagið enn í ensku úrvalsdeildinni, en í fjárhagsvandræðum. Félagið átti í vandræðum með að borga laun leikmanna og starfsmanna.

Fjórum árum síðar hafði félagið farið tvisvar í greiðslustöðvun, fallið þrisvar um deild og átt sjö mismunandi eigendur.

Nú er Michael Eisner, fyrrum framkvæmdastjóri Disney, eigandi félagsins og er félagið á uppleið undir hans stjórn. Það komst upp í C-deild í fyrra og er í níunda sæti þeirrar deildar þessa stundina.

Stuttu eftir að hann keypti Portsmouth sagði Al Fahim að markmið sitt væri að byggja nýjan leikvang fyrir Portsmouth fyrir 2015-16. Fyrir þann tíma ætlaði hann einnig að vera búinn að koma Portsmouth í topp átta í ensku úrvalsdeildinni. Það gekk ekki alveg hjá honum.
Athugasemdir
banner
banner
banner