Kovac orðaður við stjórastól Liverpool - Newcastle vill Gibbs-White - Dewsbury-Hall orðaður við Tottenham
   fim 15. mars 2018 09:48
Magnús Már Einarsson
Allardyce með betri fréttir af Gylfa - Fyrr klár í slaginn?
Icelandair
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson.
Mynd: Getty Images
Sam Allardyce, stjóri Everton, vonast til að Gylfi Þór Sigurðsson verði frá keppni í skemmri tíma en fréttir sögðu í gær. Everton gaf frá sér yfirlýsingu í gær þar sem sagt var að Gylfi yrði frá í sex til átta vikur vegna hnémeiðslanna sem hann varð fyrir gegn Brighton um síðustu helgi.

Allardyce hefur nú greint frá því að Gylfi verði mögulega kominn fyrr af stað og hann vonast til að Gylfi nái lokaleikjum Everton á tímabilinu.

„Sá sem gaf út þessa yfirlýsingu fær að heyra það," sagði Allardyce á fréttamannafundi nú rétt í þessu.

„Vonandi verður Gylfi frá keppni í styttri tíma en við búumst við. Ég hef alltaf talið að það sé rangt að tala um tíma þegar kemur að meiðslum. Þú vilt koma í veg fyrir bakslag. Ef hægt er að komast fyrr af stað þá hefur þú staðið þig vel."

„Við skoðum þetta á næstu tveimur vikum. Þetta fer eftir því hversu fljótur leikmaðurinn er að jafna sig. Gylfi er ákveðinn í að snúa aftur með okkur og íslenska landsliðinu fyrir HM."


Gylfi meiddist þegar hann lenti illa eftir að hafa gefið sendingu í leiknum gegn Brighton.

„Það voru stór kaup hjá Everton að fá hann og þetta er áfall. Þessir áverkar voru óheppni. Ég sem stjóri og starfsfólk mitt vill ekki lenda í of miklum meiðslum en þú getur ekki forðast svona meiðsli," sagði Sam en hann vonast til að sjá Gylfa spila meira í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

Síðustu 4 leikir Everton á tímabilinu
21. apríl Newcastle (H)
28. apríl Hudderfield (Ú)
5. maí Southampton (H)
13. maí West Ham (Ú)

Gylfi verður ekki með íslenska landsliðinu gegn Perú og Mexíkó í næstu og þarnæstu viku vegna meiðsla. Ísland mætir Noregi í vináttuleik á Laugardalsvelli þann 2. júní og þá er stefnt á annan vináttuleik 6. júní. Gylfi ætti að ná að æfa í einhverjar vikur áður en kemur að þessum leikjum.
Athugasemdir
banner
banner
banner