fös 15. júní 2018 12:15
Magnús Már Einarsson
Aron og Heimir í skýjunum með undirbúninginn
Icelandair
Aron á æfingunni á Spartak leikvanginum í dag.
Aron á æfingunni á Spartak leikvanginum í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heimir spjallar við erlendan fréttamann fyrir æfingu.
Heimir spjallar við erlendan fréttamann fyrir æfingu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði, og Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, eru báðir hæstánægðir með undirbúning íslenska landsliðsins fyrir leikinn gegn Argentínu á morgun.

Þeir eru báðir á því að íslenska liðið sé reynslunni ríkari eftir EM í Frakklandi fyrir tveimur árum.

„Ég áttaði mig á því núna þegar ég labbaði inn í þetta herbergi hversu stórt þetta er. Við erum búnir að undirbúa okkur mjög vel. Ég vil hrósa KSÍ og starfsliðinu fyrir það hvernig okkur leikmönnum líður. Okkur líður mjög vel og það er allt gert fyrir okkur. Svo er spurning hvernig við tæklum leikinn," sagði Aron á fréttamannafundi í dag.

„Það er game time. Við erum að fara að spila stóran leik á morgun. Strákarnir eru í góðu jafnvægi og það er gott sjálfstraust. Það hefur verið keyrsla og gott hugarfar á æfingum."

„Þetta var aðeins öðruvísi í Frakklandi þar sem við vorum að gera þetta í fyrsta skipti. Nuna er komin reynsla í lokamót. Þannig líður mér og maður sér það á strákunum að þeim líður þannig líka."


Heimir tók í sama streng og Aron. „Við erum búnir að vera lengi að undirbúa okkur og það er fullt af fólki í kringum mig sem veit út í hvað við erum að fara. Undirbúningurinn er það góður að við erum ekki að redda neinu á síðustu stundu eins og hefur oft farið í taugarnar á þjálfaranum eða þeim sem er að stjórna hlutum. Þetta er allt mjög vel skipulagt," sagði Heimir.

„Ég er með flottan hóp í kringum mig í þjálfarateyminu. Ekki bara Helga (Kolviðssyni), Gumma (Hreiðars) og Sebastian (Boxleitner) heldur sjúkraþjálfara og flotta njósnara sem koma með góð innlegg fyrir okkur. Ég er með stuðningsnet. Ég fór aðeins í fýlu í gær en það voru menn sem pikkuðu mig upp og hristu mig aðeins. Við erum meðvitaðari um umfangið á þessu og spennuna. Við erum tilbúnari í það. Hvort það hjálpi okkur á vellinum verður að koma í ljós á morgun," sagði Heimir að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner