fös 15. júní 2018 16:13
Elvar Geir Magnússon
Sampaoli staðfestir byrjunarlið Argentínu gegn Íslandi
Icelandair
Byrjunarlið Argentínu.
Byrjunarlið Argentínu.
Mynd: Elvar Geir Magnússon
Frá æfingu Argentínu í morgun.
Frá æfingu Argentínu í morgun.
Mynd: Getty Images
Jorge Sampaoli, landsliðsþjálfari Argentínu, staðfesti á fréttamannafundi í dag að byrjunarliðið í leiknum gegn Íslandi á morgun verði eins og það er á meðfylgjandi mynd.

Argentínskir fjölmiðlar höfðu greint frá uppstillingunni og talað um að val Sampaoli hefði lekið út. Þjálfarinn var ekki í neinum feluleik á fréttamannafundinum í dag og las upp liðið.


Sjá einnig:
Líklegt byrjunarlið Íslands gegn Argentínu - Allir klárir

Í Argentínu hefur markvarðarstaðan verið talsvert mikið til umræðu en Sergio Romero, markvörður Manchester United, meiddist í undirbúningi fyrir mótið. Hann var tekinn úr hópnum þó sjálfur hafi hann talið sig getað spilað á HM.

Willy Caballero, varamarkvörður Chelsea, muni standa í markinu á morgun.

Það segir sitt um styrkleika Argentínumanna sóknarlega að í byrjunarliðinu gegn Íslandi er ekki pláss fyrir Paulo Dybala, eina skærustu stjörnu Ítalíumeistara Juventus.

„Margir Argentínumenn vilja að Sampaoli þjálfari finni pláss fyrir Dybala í kerfinu en það er hægara sagt en gert. Besta staða hans er sú sama og Messi spilar og erfitt að koma þeim báðum fyrir. Margir eru á því að það sé nær ómögulegt að spila þeim saman," sagði argentínskur íþróttafréttamaður við Fótbolta.net.

Ferill Dybala með argentínska landsliðinu hefur aldrei komist á flug en hann á tólf landsleiki án þess að hafa skorað mark.

Liðsfélagi Dybala hjá Juventus, Gonzalo Higuain, þarf einnig að sætta sig við að byrja á bekknum á meðan Sergio Aguero, leikmaður Manchester City, leiðir sóknarlínuna.

Ekki er pláss fyrir Federico Fazio varnarmann Roma, Giovani Lo Celso miðjumann PSG eða reynsluboltann Ever Banega hjá Sevilla í byrjunarliði Argentínu.

Leikur Íslands og Argentínu á laugardaginn hefst klukkan 13 að íslenskum tíma.

Sjá einnig:
Sampaoli: Verður mjög erfiður leikur gegn Íslandi
Athugasemdir
banner
banner