fös 15. júní 2018 13:23
Elvar Geir Magnússon
Styttur af fjórum bræðrum gefa Spartak leikvangnum skemmtilegt yfirbragð
Icelandair
Starostin bræðurnir.
Starostin bræðurnir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rússar eru mikið fyrir að reisa styttur og það fer ekki framhjá neinum sem heimsækja Moskvu.

Sjá einnig:
Myndir: Hér spilar Ísland við Argentínu á morgun

Styttur gefa Spartak leikvangnum, þar sem Ísland mætir Argentínu á morgun, skemmtilegt yfirbragð.

Fyrir aftan endalínu vallarins, fyrir framan stúkuna, má sjá styttur af Starostin-bræðrunum fjórum sem stofnuðu Spartak Moskvu árið 1922.

Halldór Marteinsson fótboltaáhugamaður fjallar um stytturnar í grein sem birtist á heimasíðu Tólfunnar.

„Starostin-bræðurnir, þeir Nikolai, Aleksandr, Andrey og Pyotr, voru ekki bara í forsvari fyrir stofnun félagsins heldur voru leiðandi afl í störfum félagsins mestan part 20. aldarinnar. Sérstaklega á það við um elsta bróðurinn, Nikolai Starostin," segir Halldór í greinninni.

„Nikolai var flinkur knattspyrnumaður á sínum ferli, seinna lunkinn þjálfari og svo einnig góður í störfum á bak við tjöldin fyrir félagið. Þeir bræður fengu þó að kenna á pólitíkinni, sem blandaði sér inn í íþróttirnar eins og flest annað. Spartak, Dynamo og CSKA eru allt forskeyti sem voru notuð á fleiri en eitt íþróttafélag sem var stofnað á þessum tímum, þau höfðu líka töluverða merkingu á bak við sig. Lið með CSKA fremst voru stjórnuð af rússneska hernum á meðan Dynamo-liðin voru undir stjórn rússnesku leynilögreglunnar. Spartak-liðin voru eins konar mótsvar við því, það voru lið fólksins."

„Eins og gefur að skilja voru þeir sem fóru með völdin ekkert endilega sáttur við að lið fólksins væri eitthvað að ybba sig, sérstaklega ekki þegar þau fóru svo að veita þeim alvöru samkeppni um titla, jafnvel að vinna afgerandi sigra á þeirra liðum. Það eitt og sér skapaði þeim sína óvini, enda fór svo að þeir voru handteknir fyrir litlar sakir og dæmdir í tíu ára þrælkunarvinnu. Á þeim tíma voru þeir þó orðnir þjóðþekktir fyrir knattspyrnuhæfileika sína og náðu að gera sér fangelsisvistina bærilegri með knattspyrnuiðkun og -þjálfun. Að lokum komust þeir svo aftur til Moskvu og gátu haldið áfram að vinna fyrir sitt félag."

Fyrir utan leikvanginn má svo sjá risastóra styttu af rómverska skylmingarþrælnum Spartakusi.
Athugasemdir
banner
banner
banner