Garðar Gunnlaugsson, leikmaður ÍA í fyrstu deildinni, var auðvitað svekktur eftir 2-1 tap gegn HK í kvöld.
HK minnkaði forskotið á ÍA niður í tvö stig en Skagamenn sitja í öðru sæti á meðan HK er í þriðja. Axel Kári Vignisson og Guðmundur Atli Steinþórsson komu HK í tveggja marka forystu áður en Garðar minnkaði muninn en lengra komust Skagamenn ekki.
,,Þetta er frekar fúlt. Við sköpum okkur fullt af færum og mér fannst jafntefli vera sanngjarnt, alla vega," sagði Garðar við Fótbolta.net.
,,Við vissum að þeir væru þéttir fyrir og myndu sitja svolítið til baka. Okkar plan var að reyna að draga þá fram á völlinn og beita skyndisóknum. Við áttum góðar sóknir en þetta gekk ekki í dag."
,,Þetta er enn í okkar höndum og nú er bara að gíra okkur upp í næsta leik. Tindastóll gefur ekkert eins og öll lið sem koma upp á Skaga."
Garðar er kominn með 15 mörk í fyrstu deildinni í sumar en hann er langmarkahæstur, fjórum mörkum á undan næsta manni.
,,Það var planið frá byrjun að taka markakóngstitilinn. Það hefur tekist hingað til að skora, svo vonandi heldur það áfram," sagði hann að lokum.
Athugasemdir