Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   fös 15. ágúst 2014 10:30
Magnús Már Einarsson
„Van Gaal er búinn að eigna sér allt félagið"
Stuðningsmaður Manchester United - Björn Friðgeir Björnsson
Enski upphitun
Björn Friðgeir Björnsson.
Björn Friðgeir Björnsson.
Mynd: Úr einkasafni
Van Gaal tók við af Moyes í sumar.
Van Gaal tók við af Moyes í sumar.
Mynd: Getty Images
De Gea er í uppáhaldi hjá Birni.
De Gea er í uppáhaldi hjá Birni.
Mynd: Getty Images
Adnan Januzaj.
Adnan Januzaj.
Mynd: Getty Images
Fótbolti.net mun hita vel upp fyrir keppni í ensku úrvalsdeildina sem hefst á laugardaginn. Við kynnum liðin í ensku úrvalsdeildinni í samvinnu við Stöð 2 Sport 2 eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net.

Manchester United er spáð þriðja sætinu á komandi tímabili.

Björn Friðgeir Björnsson, ritstjóri á raududjoflarnir.is, svaraði spurningunum hér að neðan.

Ég byrjaði að halda með Manchester United af því að....
Ekki hugmynd. Eins og fleiri daðraði ég við ýmis lið sem krakki en ég man ekki af hverju United varð á endanum fyrir valinu. Það eina sem ég veit að sjö ára gamall grenjaði ég óhuggandi í lengri tíma þegar ég frétti að United hefði tapað bikarúrslitaleiknum. Ætli það hafi ekki haft áhrif að United liðið á þessum tíma var eitthvað það allra skemmtilegasta lið sem klúbburinn hefur teflt fram, þó ekki hafi það skilað sér í titli. Það þarf engum að segja að það að halda með United næstu 15 árin á eftir var enginn dans á rósum. Síðustu 20 ár hafa hins vegar bætt upp fyrir það svo um munar.

Hefur þú farið út til Englands að sjá þitt lið spila?
Fyrsti United leikurinn sem ég sá var auðvitað á Laugardalsvellinum 1982 þegar United vann Val. Þar lék líka George Best með Val, ótrúlegt hlýtur þeim að þykja sem eru að lesa þetta í fyrsta skipti. Að hitta hetjurnar á Hótel Loftleiðum var ótrúleg stund.

Annars hef ég farið út mun sjaldnar en sumir. Fyrst sá ég þá í Englandi árið 1988 á Selhurst Park gegn Charlton á útlegðarárum þess liðs, og fór í fyrsta sinn á Old Trafford árið eftir. 5-1 gegn Millwall... sem voru líka úrslitin í næsta leik á eftir, sem var reyndar tap gegn City á Maine Road. Þetta voru erfið ár hjá United. Eftir það hef ég farið af og til, en eini leikurinn sem ég hef séð United tapa stigi í var Evrópuleikur gegn Barcelona haustið 1994. 2-2 jafntefli þar gegn frábæru Barcelona liði sem rústaði síðan United 4-0 í útileknum.

En hápunkturinn var auðvitað að vera á Camp Nou 26. maí 1999. Að fá að sjá liðið hampa Evrópubikarnum í fyrsta sinn frá 1968 voru forréttindi og gleði sem gleymist aldrei. Síðasti leikurinn sem ég sá á Old Trafford var einmitt æfingaleikurinn gegn Valencia í vikunni.

Uppáhalds leikmaður í liðinu í dag?
David De Gea. Hann og Robin van Persie eru einu leikmennirnir sem eru ómissandi í dag, sem segir nokkuð um mannvalið sem nú er. Það er ótrúlegt að sjá gagnrýnina sem De Gea fær á sig, það er eins og menn séu enn að horfa á þriggja ára gamla leiki með honum. Frábær markvörður.

Leikmaður sem þú myndir vilja losna við?
Ég man varla eftir því að hafa verið þannig þenkjandi að vilja leikmann í burt frá félaginu, og hæðnisfullu fagnaðarhrópin sem Marouane Fellaini fékk í leiknum við Valencia voru stuðningsmönnum Manchester United ekki sæmandi. En að því sögðu hefur Anderson fengið nógu marga launatékka frá félaginu, hann hefði átt að verða stjarna, en hefur aldrei tekist að leika meira en 2 góða leiki í einu.

Leikmaður í liðinu sem fólk á að fylgjast sérstaklega með í vetur?
Þetta er árið sem Adnan Januzaj á að taka skrefið frá því að vera efnilegasti lekmaður sem unglingastarfið hefur skilað í tuttugu ár yfir í að verða einn af bestu leikmönnum deildarinnar. Hvort það tekst er undir honum einum komið. Ef hinn 18 ára James Wilson fær síðan tækifærið gæti orðið til markamaskína sem fá önnur dæmi væri um. Hann er á sinn hátt jafn ótrúlegt efni og Januzaj.

Ef ég mætti velja einn leikmann úr öðru liði í ensku úrvalsdeildinni myndi ég velja...
Yaya Toure. Ekki nokkur spurning. Týpan sem okkur sárvantar á miðjuna.

Ertu ánægður með knattspyrnustjórann?
Hann er varla sestur í stólinn, en andrúmsloftið á Old Trafford hefur gjörbreyst frá síðasta vetri. Louis van Gaal kemur eins og stormsveipur inn í klúbbinn eftirófarir síðasta árs. En mikið veltur á því að Edward Woodward framkvæmdastjóri félagins kaupi þá menn sem vantar uppá.

Getur Manchester United blandað sér í titilbaráttuna á nýjan leik í vetur?
Eins og mannskapurinn er í dag, nei. Jafnvel þó 3-4 toppklassaleikmenn komi fyrir mánaðarlokin mundi það verða mjög erfitt. Chelsea og City eru með afburðahópa og annað hvort verður meistari.

Hverjar eru helstu breytingarnar sem koma með Van Gaal?
Í fyrsta skipti frá því að 4-4-2 varð til sem leikskipulag leikur United eitthvað annað en það. Van Gaal vill helst spila 4-3-3 en segir að að hann sé ekki með mannskap í það. 3-4-1-2 þéttir vörnina, og gefur möguleikann á að spila með Van Persie, Rooney og Mata, bestu menn liðsins fram á við. Það er nokkuð ljóst að með Van Gaal er kominn stjóri sem leikmenn hafa ekkert val um annað en að bera virðingu fyrir. Moyes tapaði aldrei klefanum af því að hann átti hann aldrei. Van Gaal er búinn að eigna sér allt félagið og orð hans eru lög. Það er frábær byrjun.

Í hvaða sæti mun Manchester United enda á tímabilinu?
3-5 sæti eftir því hverjir ganga til liðs við félagið fram að lokun leikmannagluggans.
Athugasemdir
banner
banner