Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 15. ágúst 2014 07:30
Magnús Már Einarsson
„Vona að það komi einhver á pari við Alexis Sanchez"
Stuðningsmaður Liverpool - Kristján Atli Ragnarsson
Enski upphitun
Kristján Atli og John Aldridge með Meistaradeildar bikarinn.
Kristján Atli og John Aldridge með Meistaradeildar bikarinn.
Mynd: Úr einkasafni
Kristján Atli í stuði á Anfield.
Kristján Atli í stuði á Anfield.
Mynd: Úr einkasafni
Luis Suarez er horfinn á braut.
Luis Suarez er horfinn á braut.
Mynd: Getty Images
Emre Can kom frá Leverkusen.
Emre Can kom frá Leverkusen.
Mynd: Getty Images
Fótbolti.net mun hita vel upp fyrir keppni í ensku úrvalsdeildina sem hefst á laugardaginn. Við kynnum liðin í ensku úrvalsdeildinni í samvinnu við Stöð 2 Sport 2 eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net.

Liverpool er spáð fjórða sætinu í spá Fótbolta.net.

Kristján Atli Ragnarsson, ritstjóri á kop.is, svaraði spurningunum hér að neðan.

Ég byrjaði að halda með Liverpool af því að.....
Pabbi hélt með Liverpool (og heldur enn). Ég grínast oft með það að ég hafi haldið með FH frá því að ég var níu ára og flutti í Hafnarfjörðinn en að ég sé fæddur Liverpool-stuðningsmaður. Það er heldur engin lygi. Um leið og ég gat staðið í lappirnar gaf pabbi mér búning og þannig hefur þetta bara verið síðan.

Hefur þú farið út til Englands að sjá þitt lið spila?
Já. Ég hef farið alls átta sinnum á níu leiki. Ég fór fyrst í desember 1997, þá sautján ára. Það er ekki mikið miðað við suma af þeim hörðustu hér á landi en það er samt hálfgerð geðveiki að hafa farið átta sinnum til Liverpool á sautján árum!

Uppáhalds leikmaður í liðinu í dag?
Ég er orðinn svo skemmdur af þessari spurningu í gegnum tíðina að ég kann varla að svara henni lengur. Ég dýrkaði Fowler og McManaman sem pjakkur og þeir fóru báðir. Þá tók við dýrkun á Owen og svo Torres og svo Suarez. En það er einn sem hefur aldrei farið og er fæddur í sama mánuði og ég. Það hafa verið algjör forréttindi að fá að fylgja Steven Gerrard upp í gegnum allan sinn feril hjá Liverpool. Þegar hann var að stíga sín fyrstu skref fyrir Liverpool var ég jafnaldri hans sem lét mig dreyma um sömu hluti hjá FH. Það gerðist ekki og ég hætti að æfa skömmu seinna en í staðinn fékk ég að uppfylla alla draumana í gegnum jafnaldra minn sem reyndist svo verða einn albesti leikmaður í sögu Liverpool. Það er bara einn Steven Gerrard!

Leikmaður sem þú myndir vilja losna við?
Ég er nokkuð sáttur við leikmannahóp Liverpool eins og hann er í dag. Það er enginn sem pirrar mig. Ætli ég væri ekki helst til í að sjá betri vinstri bakvörð en José Enrique? Ég vona að Alberto Moreno sé sá leikmaður. Annars líkar mér mjög vel við hópinn sem er þarna í dag; þetta eru ungir, hæfileikaríkir og hungraðir strákar í kippum. Rodgers og eigendurnir hafa staðið sig vel.

Leikmaður í liðinu sem fólk á að fylgjast sérstaklega með í vetur?
Raheem Sterling og Philippe Coutinho eru að sýna öll merki þess að geta stigið stórt skref upp á við í vetur og verið tveir af bestu mönnum deildarinnar. Það vita þó flestir af þeim þannig að í staðinn ætla ég að benda mönnum á Emre Can. Þessi tvítugi miðjumaður kom frá Bayer Leverkusen í sumar og miðað við það sem ég hef séð af honum á undirbúningstímabilinu gæti hann stimplað sig hressilega inn í enska boltann í vetur, þrátt fyrir ungan aldur.

Ef ég mætti velja einn leikmann úr öðru liði í ensku Úrvalsdeildinni myndi ég velja...
Það hefði ekki verið ónýtt að fá Alexis Sanchez í framherjastöðuna sem Liverpool er ennþá að reyna að fylla eftir brotthvarf Luis Suarez. Því miður tókst það ekki en ég vona að það finnist einhver á pari við hann þarna úti.

Ertu ánægður með knattspyrnustjórann?
Er vatnið blautt? Er grasið grænt? Auðvitað, þessi ungi og óreyndi stjóri hefur farið fram úr björtustu vonum manna og það á helmingi skemmri tíma en eigendurnir sem réðu hann héldu að hann myndi þurfa. Þeir viðurkenndu í vor að þeir vonuðust eftir Meistaradeildarsæti eftir tvö ár og titilbaráttu eftir þrjú en hann skilaði báðu á innan við tveimur árum. Hvernig gæti maður beðið um meira eftir fjögur ár í einskismannslandi?

Er búið að gera nóg til að fylla skarð Luis Suarez?
Nei. Ég er mjög ánægður með innkaupin í sumar; leikmannahópurinn er sterkari á heildina og breiddin/samkeppni um stöður er miklu meiri. En okkur vantar enn þennan eina mann sem getur létt pressunni af Daniel Sturridge. Það var svo sterkt að eiga tvo markahæstu menn deildarinnar á síðustu leiktíð því jafnvel þótt annan þeirra vantaði varstu samt með þann besta frammi! Í dag er leikmannahópurinn sterkur en ef Sturridge meiðist eða missir af leikjum veikist byrjunarliðið talsvert. Ég vona að það komi einn alvöru í framlínuna núna í ágúst.

Eftir að hafa barist óvænt um titilinn á síðasta tímabili, hverjar eru væntingar stuðningsmanna núna?
Menn eru raunsæir. Liðið lítur mjög vel út en samkeppnin er að sama skapi mjög hörð. Ég sé Liverpool fyrir mér vinna þessa deild en ég get líka alveg séð liðið enda í 6. sæti, slík er samkeppnin á toppnum. Lágmarkskrafan er að ná í Meistaradeildarsæti og tryggja sig enn frekar í sessi á ný sem topplið í Englandi. Titilbarátta væri bónus. Svo væri gott að komast upp úr riðlinum í Meistaradeild en þar sem Liverpool lendir nær pottþétt í dauðariðli er ekkert öruggt þar. Topp 4 og ég er sáttur, allt annað er bónus. Útiloka þó ekki annað ævintýri í vetur.

Í hvaða sæti mun Liverpool enda á tímabilinu?
Ég ætla að skjóta á 3. sæti. Chelsea og City verða í tveimur efstu en við verðum ekki langt undan. Arsenal verða á svipuðum slóðum og mínir menn en United og Tottenham verða örlítið þar á eftir og missa af Meistaradeildarsæti. En eins og ég segi er ómögulegt að spá, ég get séð fimm lið - City, Chelsea, Liverpool, Arsenal, United - vinna deildina í vetur og ég get líka séð þau öll fyrir mér missa af Meistaradeildarsæti. Þetta verður hnífjafnt og spennandi!
Athugasemdir
banner
banner