mán 15. september 2014 09:40
Elvar Geir Magnússon
Rio Ferdinand: Taktík Moyes var vandræðaleg
Rio Ferdinand gekk í raðir QPR í sumar eftir tólf ára þjónustu fyrir Manchester United.
Rio Ferdinand gekk í raðir QPR í sumar eftir tólf ára þjónustu fyrir Manchester United.
Mynd: Getty Images
Enska pressan heldur áfram að birta brot úr sjálfsævisögu Rio Ferdinand. Nú í morgun var birtur kafli þar sem varnarmaðurinn reynslumikli sem var tólf ár hjá Manchester United talar um tímann með David Moyes við stjórnvölinn.

Moyes entist aðeins í tíu mánuði áður en hann var rekinn í apríl á þessu ári en Ferdinand talar um hvernig Skotinn missti klefann eins og það er kallað.

„Hann reyndi að innleiða ákveðna sýn en virtist ekki hafa það algjörlega á hreinu hvaða sýn það ætti að vera. Óafvitandi þá bjó hann til neikvæðan anda þar sem hann hafði alltaf verið jákvæður undir stjórn Fergie (Sir Alex Ferguson)," segir Ferdinand.

„Moyes lagði alltaf upp að stöðva andstæðingana. Moyes lagði upp með að tapa ekki. Við vorum vanir því að spila til sigurs. Hans áherslur sköpuðu neikvæðni og rugling. Mesta óvissan var um hvernig hann vildi að við myndum færa boltann fram. Oft sagði hann okkur að koma með langa bolta og sumum leikmönnum fannst þeir spila meiri háloftabolta en þeir höfðu áður gert á ferlinum."

„Stundum var okkar helsta taktík að koma með langa bolta fyrir markið. Það var vandræðalegt. Í heimaleik gegn Fulham áttum við 81 fyrirgjöf! Ég hugsaði, af hverju gerum við þetta? Andy Carroll spilar ekki fyrir okkur."

„Moyes var alltaf að breyta um. Hann sagði: 'Í dag vil ég að við eigum 600 sendingar í leiknum. Þær voru 400 í síðustu viku'. Hverjum er ekki sama? Ég vil frekar skora fimm mörk úr tíu sendingum," segir Ferdinand.

Hann segir frá því að Moyes hafi látið leikmenn æfa í almenningsgarði fyrir Meistaradeildarleik gegn Bayern München en það finnist honum áhugamannalegt. Einnig að stjórinn hafi tilkynnt það fyrir framan allt liðið að Ferdinand væri búinn að missa sæti sitt.

„Það drap mig. Inn í mér vildi ég öskra og rífa í hann. Ég er samt liðsmaður og þurfti að bíta í tunguna og standa þarna. En þetta var líklega versta einstaka augnablik sem ég átti hjá United. Ég hafði aldrei misst sæti fyrir stórleik með svona hætti og það var hrikalegt að það var tilkynnt svona fyrir framan hópinn."
Athugasemdir
banner
banner
banner