Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 15. september 2014 16:45
Magnús Már Einarsson
Viðar Kjartans: Nánast kominn með nóg af sjálfum mér
Viðar Örn Kjartansson.
Viðar Örn Kjartansson.
Mynd: Kenneth Myhre - Kennethmyhre.net
Viðar fagnar einu af mörkunum sínum.
Viðar fagnar einu af mörkunum sínum.
Mynd: Kenneth Myhre - Kennethmyhre.net
Fagnið hans Viðars.
Fagnið hans Viðars.
Mynd: Kenneth Myhre - Kennethmyhre.net
,,Fyrir tímabilið stefndi ég á markakóngstitilinn en nú þarf ég kraftaverk til að klúðra því þar sem ég er tíu mörkum á undan næsta manni. Ég er sex mörkum frá markametinu og ég tel að það sé möguleiki," sagði Viðar Örn Kjartansson framherji Valerenga þegar Fótbolti.net heyrði í honum í dag.

Viðar Örn hefur skorað 24 mörk í 22 leikjum með Valerenga og þegar sjö umferðir eru eftir í norsku úrvalsdeildinni á hann fína möguleika á að slá markametið sem er 30 mörk.

,,Ég er að kafna í fjölmiðlum. Þetta er rugl. Það eru svo margir fjölmiðlar hérna. Ég er endalaust í sjónvarpinu. Það er svakalega mikið fjallað um mann og maður er nánast kominn með nóg af sjálfum sér. Þetta var skemmtilegt í byrjun þegar maður var mikið í sjónvarpinu en maður þreytist á þessu. Þetta er samt partur af því þegar það gengur vel."

Hefur verið þolinmóður á ferlinum
Viðar féll með Selfyssingum úr Pepsi-deildinni fyrir tveimur árum en í fyrra raðaði hann inn mörkum með Fylki sem varð til þess að Valerenga keypti hann. Fæstir bjuggust þó við að hann myndi slá strax í gegn í Noregi eins og raunin er. Hverju þakkar Viðari þessu góða gengi?

,,Ég er búinn að vera þolinmóður í gegnum fótboltaferilinn minn. Ég er búinn að leggja gífurlega mikið á mig, sérstaklega á þessu tímabili. Ég er búinn að hugsa vel um mig þar sem maður hefur endalausan tíma hérna. Ég var staðráðinn í að koma ekki til Noregs og vera á bekknum. Ég ætlaði að vera í umræðunni og verða einn af bestu framherjunum í deildinni."

,,Liðsfélagarnir hafa skapað endalaust af færum fyrir mig og kunna mjög vel á mig. Við skorum gríðarlega mikið af mörkum og þetta er besti klúbbur í heimi fyrir mig í rauninni, það er mikið spilað upp á mig. Þjálfararnir fengu mig sem framherja númer eitt og þegar þeir hafa svona mikla trú á þér þá spilar þú bara betur."


Sagan er 18+
Viðar Örn hefur fagnað mörkum sínum í sumar með sama hætti og norskir fjölmiðlamenn hafa mikið forvitnast um söguna á bakvið fagnið. Viðar hefur hins vegar ekki viljað opinbera söguna.

,,Þetta er 18+ saga svo það er kannski ekki gott að litlu börnin sem líta upp til manns séu að lesa þetta í blöðunum. Hinir og þessir menn hafa hringt og spurt mig hvort ég geti hitt þá yfir kaffibolla og sagt þeim söguna á bakvið þetta. Það gæti verið að maður komi með smá part af sögunni eftir tímabilið."

England er draumurinn
Mörg félög fylgjast með gangi mála hjá Viðari þessa dagana en einhver tilboð bárust í hann í sumar. Þeim tilboðum á væntanlega eftir að fjölga í vetur.

,,Það eru sjö leikir eftir og ef ég held mínu striki get ég varla farið í næsta tímabil og reynt að toppa þetta. Þá vill maður reyna fyrir sér í stærri deild. Það gæti verið áhugi í janúar eða næsta sumar. Ég þarf að vera þolinmóður og taka rétta ákvörðun. Ég má ekki fara í of stóran klúbb."

,,Þetta þarf að vera réttur klúbbur og þjálfarinn það hafði áhuga. Það er ekki nóg að einhver útsendari fylgist með þér og þú sért keyptur án þess að þjálfarinn viti hvað þú heitir. Ég þarf að taka rétta ákvörðun en að sjálfsögðu stefni ég hærra og vil spila á eins háu leveli og ég get. Mig langar að vera í topp 5-10 bestu deildum í heimi. Draumurinn væri að spila í Englandi en ég er opinn fyrir flestu sem er spennandi."


Hér að neðan má sjá öll 24 mörk Viðars á tímabilinu.


Athugasemdir
banner
banner