Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fim 15. september 2016 08:30
Elvar Geir Magnússon
Pape: Höfum hreinsað neikvæðnina út
Pape Mamadou Faye í leik með Ólsurum.
Pape Mamadou Faye í leik með Ólsurum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eftir frábæran fyrri helming Íslandsmótsins hefur Víkingur Ólafsvík hrapað niður í harða fallbaráttu Pepsi-deildarinnar þegar þrjár umferðir eru eftir af mótinu. Liðið hefur gengið í gegnum eyðimerkurgöngu og síðasti sigur kom 28. júní.

„Síðustu átta vikur eða svo hafa alls ekki verið góðar hjá okkur," segir sóknarmaðurinn Pape Mamadou Faye. Hann segir að þessi tími hafi verið liðinu erfiður.

„Andrúmsloftið í hópnum var ekki nægilega jákvætt. En við vitum hvað þarf að gera til að halda félaginu í deild þeirra bestu og höfum verið að líta í eigin barm. Það var neikvæðni í gangi en við leikmenn höfum talað saman og hreinsað það út. Það er gott við þennan hóp að við erum allir vinir."

„Það eru batamerki þó stigin hafi ekki verið að koma. Við ætlum að ná í nægilega mörg stig til að bjarga félaginu frá falli," segir Pape en í dag mæta Ólsarar nöfnum sínum í Víkingi Reykjavík.

Öðruvísi að mæta gömlum félögum
Pape skoraði sitt fyrsta mark í deildinni á þessu tímabili í 2-1 tapinu gegn Fylki í síðustu umferð og vonast til að fylgja því eftir.

„Það var gott að komast á blað og það væri gaman að skora líka í næsta leik ef maður fær einhverjar mínútur. En mikilvægast er að liðið vinni leikinn. Við þurfum á öllum stigunum að halda til að vera áfram í þessari deild, það er klárt mál. Við erum að fara að mæta liði sem er gott að halda boltanum og þetta verður spennandi leikur,"

Pape þekkir Víking Reykjavík vel enda lék hann með liðinu 2013 og 2014.

„Það er alltaf skrýtin tilfinning að mæta sínu fyrrum félagi og það er klárlega öðruvísi og sérstakt. Ég á enn góða vini sem eru í liðinu og það verður gaman að mæta þeim. Maður er farinn að venjast þessu samt eins og um síðustu helgi þegar við mættum Fylki. Þetta eru félög sem ég á góðar minningar frá. Þetta verður sérstakur dagur en mikilvægast er að við náum í þrjú stig," segir Pape Mamadou Faye.

fimmtudagur 15. september
17:00 Fylkir-FH (Floridana völlurinn)
17:00 Fjölnir-Þróttur R. (Extra völlurinn)
17:00 Víkingur Ó.-Víkingur R. (Ólafsvíkurvöllur)
17:00 ÍA-KR (Norðurálsvöllurinn)
20:00 Valur-Breiðablik (Valsvöllur)
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner