mið 15. október 2014 12:13
Magnús Már Einarsson
Brynjar Gauti reiknar með að fara frá ÍBV
Brynjar Gauti í leik með ÍBV.
Brynjar Gauti í leik með ÍBV.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Varnarmaðurinn Brynjar Gauti Guðjónsson er að öllum líkindum á förum frá ÍBV en samningur hans við félagið rennur út um áramótin.

,,Það er kominn tími á að prófa eitthvað nýtt og ég ætla fyrst og fremst að reyna að komast út," sagði Brynjar Gauti við Fótbolta.net í dag.

Brynjar Gauti spilaði báða leikina með U21 árs landsliðinu gegn Dönum í umspili um sæti á EM og hann segist hafa heyrt af áhuga erlendis.

,,Maður hefur heyrt af áhuga og það eru lið að fylgjast með. Verkefnið með U21 var að klárast í gærkvöldi og það skýrist kannski betur í vikunni hvað er í boði."

Hinn 22 ára gamli Brynjar Gauti hefur einnig verið orðaður við Stjörnuna en hann segist ekkert hafa ákveðið hvað tekur við ef hann fer ekki út í atvinnumennsku.

,,Ég er ekkert búinn að ákveða hvað ég geri ef ég verð áfram á Íslandi," sagði Brynjar Gauti.

Brynjar Gauti var að ljúka sínu fjórða tímabili með ÍBV en hann er uppalinn hjá Víkingi á Ólafsvík.
Athugasemdir
banner
banner
banner