lau 15. október 2016 09:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Guardiola: Margt líkt með Stones og Koeman
Guardiola ræðir hér við Stones
Guardiola ræðir hér við Stones
Mynd: Getty Images
Pep Guardiola, stjóri Manchester City, telur að John Stones geti orðið eins góður og Ronald Koeman var á sínum tíma. Guardiola og Koeman voru á árum áður liðsfélagar hjá Barcelona, en þeir eru miklir vinir í dag.

Þeir félagar mætast með sínum liðum í ensku úrvalsdeildinni í dag þegar Manchester City og Everton eigast við á Etihad-leikvanginum klukkan 14:00. Það má búast við mjög fróðlegum og spennandi leik.

Það er ekki bara út af stjórunum heldur verður þetta einnig í fyrsta skipti sem Stones mætir Everton síðan hann gekk til liðs við Manchester City í sumar fyrir 47,5 milljónir punda. Stones hefur byrjað vel hjá City-mönnum og Guardiola hefur mikla trú á miðverðinum. Hann líkir honum við kollega sinn hjá Everton.

„Það er líkt með þeim að þeir vilja báðir spila boltanum," sagði Guardiola á blaðamannafundi. „Venjulega eru miðverðir stórir, góðir með hausnum, verjast maður á mann og þetta er eitthvað sem við þurfum, að sjálfsögðu. Þú þarft miðverði í það. En núna er það plús ef þeir hafa gæðin til þess að spila."

„John hefur margt líkt með Ronald. Sérstaklega þegar kemur að andlega þættinum. John er strákur sem vill alltaf spila, vera undir pressu. Venjulega þá takast þeir sem vilja spila boltanum betur á við pressu heldur en aðrir."

„Ég get ekki borið þá saman núna, ekki strax, kannski í framtíðinni."
Athugasemdir
banner
banner