banner
   lau 15. nóvember 2014 14:22
Magnús Már Einarsson
Heimir: Gylfi og Rosicky báðir í heimsklassa
Icelandair
Heimir á fréttamannafundinum í Plzen í dag.
Heimir á fréttamannafundinum í Plzen í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það var létt yfir Heimi og Aroni Einari á fundinum í dag.
Það var létt yfir Heimi og Aroni Einari á fundinum í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Ég held að þeir séu báðir heimsklassa leikmenn," sagði Heimir Hallgrímsson, annar af landsliðsþjálfurum Íslands, þegar hann var beðinn um það á fréttamannafundi í dag að bera saman Gylfa Þór Sigurðsson og Tomas Rosicky leikmann Tékka.

,,Þeir eru báðir virkilega vinnusamir. Ég held að það sé ekki algengt að svona hæfileikaríkir leikmenn séu eins vinnusamir og þeir eru."

Heimir segir að hægt sé að bera liðsheild Tékka saman við liðsheild Íslendinga.

,,Þess vegna finnst okkur tékkneska liðið vera svona gott. Við getum borið það saman við okkur," sagði Heimir léttur.

,,Árangurinn þeirra er búinn að nást á sama hátt og hjá okkur. Þess vegna finnst okkur Pavel Vrba (landsliðsþjálfari Tékka) hafa gert góða hluti á stuttum tíma. Hann hefur náð góðri liðsheild á stuttum tíma."

,,Við berum mikið lof á Pavel Vrba og það sem hann hefur verið að gera hér í Tékklandi með þetta lið. Hann er búinn að vera með það í stuttan tíma og hefur verið klókur í því hvernig hann setur liðið upp."

,,Við vitum það sem landsliðsþjálfarar að það tekur tíma að búa til lið. Hann hefur verið klókur og valið taktík sem leikmenn þekkja. Leikmenn þurfa hvorki að eyða miklum tíma í taktík né að þekkja inn á hvorn annan. Árangur þeirra er árangur liðsheildar."

Ísland er með níu stig eftir þrjá leiki í undankeppninni en Heimir segir að leikmenn séu þrátt fyrir það jarðbundnir.

,,Ég hef ekki fundið á leikmönnum að þeir séu öðruvísi í þessum undirbúningi í einhverjum öðrum. Það er rétt hugarfar í þessum hópi og við reynum að velja leikmenn með rétt hugarfar. Þetta eru strákar sem hafa hugarfar sigurvegarans og þeir fara ekki á flug þó að einn eða tveir leikir vinnist," sagði Heimir.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner