Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 15. nóvember 2017 11:34
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Eyjólfur eftir endurkomuna í Eistlandi: Góð kennslustund
Eyjólfur Sverrisson.
Eyjólfur Sverrisson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Albert hóf endurkomuna.
Albert hóf endurkomuna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik U21 landsliðsins.
Úr leik U21 landsliðsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Raggi Óla
„Leikurinn breytist svo sem ekkert," sagði Eyjólfur Sverrisson, landsliðsþjálfari U21 árs landsliðs Íslands, þegar fréttamaður Fótbolta.net heyrði í honum orðið í dag.

Drengir Eyjólfs í U21 unnu magnaðan sigur á Eistlandi í undankeppninni fyrir EM 2019 í gær.

Ísland lenti 2-0 undir í leiknum, en kom til baka og vann að lokum 3-2 í leik sem Ísland var betri aðilinn í.

„Við vorum búnir að spila virkilega vel í fyrri hálfleiknum, við vorum búnir að fá fullt af færum en boltinn vildi ekki inn. Við vorum mjög öflugir í fyrri hálfleiknum og ekkert ósáttir við okkar leik," sagði Eyjólfur um endurkomusigurinn í gær.

„Svo fáum við á okkur mark á síðustu sekúndunni (í fyrri hálfleik), hann flautar í hálfleik eftir að þeir skora. Það er náttúrulega svolítið kjaftshögg og við fórum yfir hlutina sem við ætluðum að gera í seinni hálfleik. Við ætluðum að koma vel inn í leikinn aftur, en svo í byrjun seinni hálfleiks skora þeir beint úr aukaspyrnu."

„Það var glæsilegt skot hjá þeim og það var skot númer tvö eða þrjú sem þeir höfðu átt í leiknum."

„Eftir það breyttum við um taktík og settum aðeins meira í sóknina, settum meiri pressu á þá og vorum ákveðnir í að halda áfram. Við vorum búnir að fá færi og höfðum trú á því að við myndum skora," sagði Eyjólfur um gang leiksins.

Endurkoman
„Fljótlega eftir annað markið spiluðum við okkur vel í gegn og Albert (Guðmundson) skrúfar hann í fjærhornið. Svo fáum við önnur tvö mörk frá Hans og Óttari sem komu eftir klafs. Við vorum búnir að fá önnur færi fyrir þessi mörk og í leiknum (öllum) vorum við með 27 marktilraunir. Við vorum að spila gríðarlega vel."

„Við héldum boltanum vel og vorum að skapa fullt af færum en nýtingin var ekki nógu góð."

„Það sem ég er ánægðastur með í rauninni er karakterinn í strákunum, að vera búnir að fá kjaftshögg á sig rétt fyrir hálfleik og aftur í seinni hálfleik beint úr aukaspyrnu, að menn haldi sér samt við planið og haldi áfram að hafa trú á því sem þeir eru að gera. Það er það sem mér finnst það flottasta í þessu."

Það er alltaf gríðarlega skemmtilegt að vinna fótboltaleiki á þennan hátt, er það ekki rétt?

„Eftir á er það þannig," segir Eyjólfur og hlær. „Það er ekki skemmtilegt á meðan því stendur."

„Það er mikill skóli í þessu fyrir strákanna, þetta sýnir það og sannar að þeir þurfi alltaf að hafa trú á sér; það er alltaf hægt að snúa öllu við, maður verður bara að trúa því."

Leikur sem þurfti að vinnast
Ísland er með sjö stig eftir fimm leiki í riðlinum. Staðan er ekki alslæm og möguleikarnir eru ekki horfnir. Eyjólfur segir að leikurinn í gær hafi verið leikur sem liðið hafi þurft að vinna.

„Við erum enn með í keppninni. Við vissum það fyrir leikinn að við þyrftum að vinna til þess að vera inn í keppninni. Við sögðum það fyrir leikinn að við sættum okkur ekki við jafntefli, að við ætluðum að vinna, við yrðum að gera það til að vera áfram í keppninni."

„Við settum allt í að vinna leikinn og ég er hrikalega ánægður hvernig fórum í hann. Við sýndum mikinn kraft, við áttum flottar sóknir, héldum boltanum virkilega vel, sóttum á réttum augnablikum og áttum góð skot. Maður var rosalega ánægður með leikinn og að bæta við þessum karakter er geggjað."

„Þetta var góð kennslustund."

„Mjög sérstakt"
Ísland hefur spilað fjóra útileiki í röð og mun spila þann fimmta í mars á næsta ári í Norður-Írlandi. Næsti heimaleikur liðsins er í september. Verður ekki ljúft að spila loksins heima?

„Þetta er mjög sérstakt," segir Eyjólfur.

„Að spila fimm útileiki í röð er eitthvað sem maður hefur ekki upplifað áður. Þetta er sérstakt, maður verður að segja eins og er. Það verður gaman að spila aftur á heimavelli."

„Það virðast allir leikir vera mjög jafnir í þessum riðli og þetta snýst svolítið um dagsformið," sagði Eyjólfur að lokum.

Sjá einnig:
Mögnuð endurkoma U21 í Eistlandi - Vour 2-0 undir
Athugasemdir
banner
banner
banner