banner
   fös 15. desember 2017 10:30
Ingólfur Stefánsson
Neville: Rétt ákvörðun hjá Klopp að rótera liðinu
Mynd: Getty Images
Jurgen Klopp stjóri Liverpool hefur þurft að þola töluverða gagnrýni fyrir að gera of miklar breytingar á liði sínu á milli leikja.

Síðustu tveir leikir Liverpool, gegn Everton og West Bromwich Albion, hafa endað með jafntefli og hefur Klopp verið gagnrýndur fyrir liðsuppstillingu sína. Sérstaklega fyrir nágrannaslaginn gegn Everton þegar hann gerði 6 breytingar á liði sínu sem hafði unnið Spartak Moskva 7-0 í Meistaradeildinni.

Phil Neville segir þó að Klopp sé að gera rétt með því að breyta liði sínu svona mikið. Hann segir að það sé nauðsynlegt svo að liðið lendi ekki í sömu aðstæðum og í janúar á síðasta tímabili.

„Hann þarf að rótera liðinu vegna þess hvernig fótbolta það spilar. Ég er sammála því sem hann er að gera. Þeir stjórnuðu leiknum gegn Everton en Everton fékk víti og hann endaði jafntefli."

„Gegn West Brom stillti hann upp sínu sterkasta liði og sá leikur endaði einnig í jafntefli. Hann var einnig að breyta liðinu mikið í leikjunum fyrir þessi jafntefli og þá sagði enginn neitt."


Liverpool lenti í miklum meiðslavandræðum á síðasta tímabili og Neville telur mikilvægt að forðast endurtekningu á því.

„Hann þarf að halda sínum bestu leikmönnum heilum í desember og janúar. Ef þeir eru það ekki, eins og á síðasta tímabili, þá lenda þeir í vandræðum í deildinni í janúar og febrúar, eins og á síðasta tímabili."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner