fös 15. desember 2017 18:00
Elvar Geir Magnússon
Segir að Mahrez væri tilvalinn til að fylla skarð Coutinho
Riyad Mahrez.
Riyad Mahrez.
Mynd: Getty Images
Ef Liverpool selur Philippe Coutinho til Barcelona væri Alsíringurinn Riyad Mahrez hjá Leicester nánast fullkominn til að fylla skarðið.

Þetta segir breski íþróttafréttamaðurinn Graham Ruthven.

Mahrez var lykilmaður þegar Leicester varð Englandsmeistari á síðasta ári og hann hefur verið funheitur í síðustu leikjum.

„Mahrez myndi lina þjáninguna sem fylgir því að missa Coutinho. Sagan segir að Mahrez vilji taka næsta skref á ferlinum og þetta yrði lausn sem myndi henta báðum aðilum," segir Ruthven.

„Auðvitað eru þeir ekki eins leikmenn þó báðir skráist sem leikstjórnendur. Síðan Claude Puel tók við Leicester hefur hann náð að fá Mahrez til að sýna sínar bestu hliðar í frjálsu hlutverki fyrir aftan sóknarmanninn. Coutinho er mun betri í að fara niður og ná í boltann."

„Það er erfitt að fá mann í stað Coutinho. Mahrez er ekki í sama gæðaflokki en er með marga af þeim kostum sem gerir Coutinho svo mikilvægan hjá Liverpool. Hann er með mikla tæknilega getu og myndi henta Liverpool vel."

Barcelona er með Coutinho efstan á óskalista sínum og margir telja bara tímaspursmál hvenær Brasilíumaðurinn færir sig um set.
Athugasemdir
banner
banner
banner