þri 16. janúar 2018 15:00
Elvar Geir Magnússon
Borgarstjórinn fær svar frá lögreglunni vegna Barkley
 Joe Anderson í góðum félagsskap.
Joe Anderson í góðum félagsskap.
Mynd: Getty Images
Merseyside lögreglan segir að ekkert bendi til þess að eitthvað vafasamt hafi átt sér stað þegar Chelsea keypti Ross Barkley til Chelsea.

Joe Anderson, borgarstjóri í Liverpool, hafði samband við lögregluna og bað um rannsókn vegna kaupanna.

Anderson er granítharður stuðningsmaður Everton og var ósáttur við að kaup Chelsea á Barkley fyrir 35 milljónir punda duttu upp fyrir á síðustu stundu í fyrra. Í staðinn fékk Chelsea hann fyrir 15 milljónir punda í þessum mánuði.

Serena Kennedy, aðstoðarlögreglustjóri, sendi Anderson bréf og sagði að engar sannanir séu til staðar um að eitthvað glæpsamlegt hafi átt sér stað.

Lögreglan hefur þó beðið enska knattspyrnusambandið um að fá upplýsingar ef eitthvað kemur upp á yfirborðið sem bendir til vafasamra viðskiptahátta.

„Ég vil að enska knattspyrnusambandið og úrvalsdeildin skoði vinnureglur sínar. Þegar búið er að samþykkja kaup á leikmanni í ágúst en gengið frá þeim sextán vikum síðar fyrir 20 milljónum punda lægra verð finnst mér ástæða til að skoða það," segir Anderson.

Borgarstjórinn hefur fengið talsverða gagnrýni fyrir þessi viðbrögð sín og sagt að þau hæfi ekki embætti hans. Hann segist hafa skrifað bréfið sem fótboltastuðningsmaður.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner