þri 16. janúar 2018 17:30
Elvar Geir Magnússon
Suarez grét eftir að hann beit Chiellini
Suarez heldur um tennurnar eftir að hann beit Chiellini á HM í Brasilíu 2014.
Suarez heldur um tennurnar eftir að hann beit Chiellini á HM í Brasilíu 2014.
Mynd: Getty Images
Luis Suarez segir að hann hafi óttast að „draumaskiptin" til Barcelona myndu ekki verða að veruleika eftir að hann var dæmdur í bann fyrir að bíta andstæðing á HM 2014.

Úrúgvæinn beit Giorgio Chiellini, varnarmann Ítalíu, og viðurkennir að hafa grátið eftir leikinn.

Suarez segir að hann hafi aftur grátið, þá af gleði, þegar Barcelona sagðist vilja fá hann þrátt fyrir hegðun hans.

Suarez fór til spænska stórliðsins í júlí 2014, innan við tveimur vikum eftir að hann fékk fjögurra mánaða bann. Þetta var hans þriðja leikbann fyrir að bíta andstæðing.

„Það var mikið sem flaug í gegnum hausinn. Ég hugsaði um HM og hvort ég gæti uppfyllt ósk mína um að fara til Barca. Þetta var mjög sársaukafull stund fyrir mig. Það sem gerðist hafði mikil áhrif á mann, það var flókið og sársaukafullt."

Suarez hefur skorað 98 mörk í 113 leikjum síðan hann fór á Nývang og segir að félagið hafi alltaf sýnt sér stuðning, fyrir það verði hann alltaf þakklátur.
Athugasemdir
banner
banner
banner