Allir erlendir leikmenn í meistaraflokki karla og kvenna hjá Selfossi fóru í íslenskukennslu á síðasta tímabili. Verkefnið reyndist vel og allir erlendir leikmenn sem verða hjá liðinu í ár fara líka í íslenskukennslu en búið er að setja ákvæði þess efnis í samninga þeirra.
„Ég var að útbúa kynningu fyrir erlenda leikmenn þegar hugmyndin vaknaði. Ég bar þetta undir framkvæmdastjórann og settum þetta inn í þessa kynningu og svo seinna inn í samninga við leikmennina," sagði Gunnar Rafn Borgþórsson, þjálfari Selfyssinga í samtali við Fótbolta.net.
„Leikmennirnir sjálfir gera sér ekki grein fyrir því í ferlinu hversu mikið þetta hjálpar þeim gagnvart liðsfélögunum, samfélaginu og sjálfum sér. Már Másson kennari og stórmeistari tók þetta verkefni að sér í fyrra og á heiður skilið fyrir frábæra kennslu."
Erlendu leikmennirnir fara vikulega í íslensku tíma og síðan reyna þeir einnig fyrir sér í íslenskunni í kringum starfið hjá Selfossi.
„Við gerum þetta í ákveðin tímabil, tvisvar og svo einu sinni í viku," segir Gunnar um íslenskutímana. „Við stefnum á að byrja aftur núna í mars þegar allir eru búnir að koma sér fyrir. Við látum leikmennina þjálfa eða koma við á æfingum yngstu flokkana reglulega til að auka færnina og orðaforðann. Þar fá þau bestu æfinguna."
Leikmennirnir hafa sýnt miklar framfarir eftir að kennslan hófst. Iván 'Pachu' Martinez Gutiérrez, sem leikur með karlaliði Selfyssinga, og Chante Sandiford, sem er í marki hjá kvennaliðinu, hafa til að mynda bæði náð góðum tökum á íslenskunni.
„Pachu og Chante eru nánast al talandi, skilja allt á íslensku og tala hana ágætlega. Aðrir eru ekki komnir eins langt en eru ótrúlega góðir og tilbúnir til að halda því við," sagði Gunnar.
Athugasemdir