Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   fös 16. febrúar 2018 20:44
Ívan Guðjón Baldursson
Lögreglan í Barcelona: Leikmennirnir stálu leigubíl
Mynd: Getty Images
Fjórir leikmenn West Brom komu sér í vandræði í æfingaferð liðsins á Spáni. BBC Sport náði sambandi við lögregluna í Barcelona sem útskýrði málið í grófum dráttum.

Jonny Evans, fyrirliði West Brom, fór út á lífið ásamt liðsfélögum sínum Gareth Barry, Boaz Myhill og Jake Livermore.

Þetta gerðu þeir þrátt fyrir útgöngubann West Brom, sem tekur gildi á miðnætti.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu voru mennirnir að skemmta sér í borginni og þegar skemmtistaðirnir lokuðu tóku þeir leigubíl á skyndibitastað.

Þegar þeir yfirgáfu svo skyndibitastaðinn tóku þeir leigubílinn og keyrðu hann aftur upp á hótelið, en skildu leigubílstjórann eftir á skyndibitastaðnum.

Félagarnir voru komnir upp á hótel tæplega sex tímum of seint og lét starfsmaður hótelsins lögreglu vita af auðri leigubifreið fyrir utan.

Það tók leigubílstjórann rúmlega tvo tíma að finna bílinn aftur og er lögregla búin að yfirheyra leikmennina. Þeir eiga yfir höfði sér refsingu frá bæði West Brom og katalónskum yfirvöldum, líklegast í formi sekta.

Þetta er álitið mikið hneykslismál á Englandi, sérstaklega í ljósi þess að West Brom hefur gengið skelfilega á tímabilinu og er á botni úrvalsdeildarinnar.
Athugasemdir
banner