Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður Breiðabliks í Pepsi-deild karla, var að vonum ánægður með 1-0 sigur liðsins á Víkingum er liðin mættust í 8-liða úrslitum Lengjubikarsins í kvöld.
Elfar Árni Aðalsteinsson skoraði sigurmarkið gegn Víkingum í kvöld en Breiðablik mætir Þór í undanúrslitunum. Gunnleifur var ánægður með frammistöðu liðsins og segist þá spenntur fyrir komandi sumri.
,,Hún var ágæt, við höfum oft spilað betur en það er alltaf gaman að vinna 1-0 og vinnslan var góð sérstaklega í seinni hálfleik. Fín holning á þessu heilt yfir litið," sagði Gunnleifur við Fótbolta.net í kvöld.
,,Vinnsla og hlaupageta og vilji það var aðallega það. Víkingar eru baráttulið sem vilja hlaupa mikið og fara í contact og svona og við mættum því og gerðum það ágætlega."
,,Við erum með nokkra mjög flinka og spræka leikmenn sem geta slátrað leikjum hvenær sem er."
,,Það er alltaf erfitt að spila við Þór, sama hvar og hvenær. Það er komin tilhlökkun þó svo það sé snjór úti, spenna og gleði og núna verðum að sjá sólina verða gulari og grasið grænna og þá verðum við klárir," sagði hann enn fremur.
Hægt er að sjá viðtalið í heild sinni hér fyrir ofan.
Athugasemdir